[x]

Yfirlit um jarðfræði Reykjanesskaga

Jarðfræðilega nær Reykjanesskagi austur að þrígreiningu plötuskilanna sunnan Hengils. Reykjanesskagi er svokallað sniðrekbelti og fer gliðnunin fram í NA-SV-eldstöðvakerfum, sem eru tugir kílómetra að lengd, með misgengjum, gjám og gígaröðum.

Helstu hnikþættir á Íslandi.

Á kortinu eru sýndir helstu hnikþættir á Íslandi. Rekbeltin á Íslandi (svört) hliðrast til austurs frá Reykjaneshrygg (RH) og Eyjafjarðarál (EÁ). Það gerist um Suðurlands-þverbrotabeltið (SB) og annað þverbrotabelti kennt við Tjörnes (HF) milli Húsavíkur og Flateyjar. Brotabelti á Arnarvatnsheiði (A) og í Borgarfirði (B) eru sama eðlis. Þau tengja á milli Vestra rekbeltisins (VR) og Snæfellsness-hliðarbeltisins (SN). Vestra (VR), Eystra (ER) og Norðurrekbeltið (NR) eru sýnd svört. VR og ER eru sýnd sem fleygar. Það á að gefa til kynna vaxandi gliðnun annars vegar til suðvesturs í VR og hins vegar til norðaustusr í ER. Yfir Mið-Ísland liggja eldstöðvakerfi. Þau helstu eru gefin til kynna með H (Hofsjökull) og GK (Grímsvötn-Kverkfjöll). Sniðrekbelti eru sýnd í bleikum lit, annars vegar Reykjanesskagi (RN) og hins vegar spegilmynd hans, Grímseyjar-Axarfjarðarbeltið (GR). Hliðarbelti Snæfellsness (SN), Suðurlands (SH) og Öræfajökuls-Snæfells eru sýnd í bláum lit. Sveru örvarnar sýna rekstefnuna. Rekhraði er um 1 cm á ári í hvora átt.

Sniðgengisþátturinn kemur fram í nokkurra kílómetra löngum norður-suður sprungum með láréttri færslu og sprunguhólum. Þær eru á mjóu belti sem liggur eftir skaganum endilöngum. Þar verða tíðum jarðskjálftar. Þeir koma í hrinum og eru flestir litlir. Sá öflugasti hefur verið um 6 stig að stærð. Tímabil eldgosa og gliðnunarhreyfinga annars vegar og sniðgengishreyfinga hins vegar skiptast á og standa hvor um sig í 6-8 aldir. Tímabil sniðgengishreyfinga stendur yfir.

Síðasta gos- og gliðnunartímabili lauk um miðja 13. öld. Tímabil eldgosa eru fundin með aldursgreiningu hrauna með hjálp öskulaga og C14- aldursgreiningum, auk skráðra heimilda um gos eftir landnám. Aðeins tvö síðustu gostímabilin eru vel þekkt, það þriðja að nokkru leyti, en helst til fá hraun því tilheyrandi hafa verið aldursgreind. Eldstöðvakerfin hafa ekki verið virk samtímis heldur hefur gosvirkni á þeim flust á milli þeirra með löngum hléum á milli. 

Eldstöðvar á Reykjanesi. Kristján Sæmundsson hjá ÍSOR útfærði myndina.

 

Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi. Miðstöð þeirra ákvarðast af mestri hraunaframleiðslu í sprungugosum. Sprungusveimar eldstöðvakerfanna, með gjám og misgengjum, eru miklu lengri en gossprungureinarnar. Þar hafa kvikuinnskot (berggangar) frá megineldstöðvunum ekki náð til yfirborðs. Í fimm af eldstöðvakerfunum er háhitasvæði. Hitagjafi þeirra eru innskot ofarlega í jarðskorpunni. Boranir á háhitasvæðunum hafa sýnt að 20-60% bergs neðan 1000-1600 m eru innskot. Súrt berg og öskjur eru ekki í eldstöðvakerfum skagans. Veik vísbending er þó um kaffærða öskju á Krýsuvíkursvæðinu, og í Hengli kemur fyrir súrt berg í megineldstöðinni, en það er norðan þrígreiningar plötuskilanna (gosbeltamótanna). Bergfræði gosbergsins í eldstöðvakerfunum spannar bilið frá pikríti til kvarsþóleiíts.

Brennisteinsfjallakerfið hefur verið virkast af eldstöðvakerfum skagans eftir ísöld og framleitt mest hraun, bæði að flatar- og rúmmáli. Hvert hinna þriggja gostímabila sem greind hafa verið byrjaði þar um 200-300 árum fyrr en hin komu til. Endurtaki það sig mætti ætla að Brennisteinsfjallakerfið færi að nálgast nýtt upphaf miðað við lengd undanfarinna sniðgengistímabila. Hin myndu svo fylgja eftir með löngum hléum á milli.

Samantekt frá Kristjáni Sæmundssyni jarðfræðingi ÍSOR, birt árið 2010, teikningar uppfærðar í janúar 2020.