[x]

Rennslismælingar með ferilefnum (TFT)

Rennslismælingar með ferilefnum hafa verið notaðar í auknum mæli á undanförnum árum til að meta tveggja fasa rennsli úr jarðhitaholum. Aðferðin er gjarnan notuð samhliða hefðbundnum aðferðum við rennslismælingar við prófanir á holum og við eftirlit á afköstum vinnsluholna og jarðhitageyma.

Aðferðin byggist á notkun tveggja ferilefna sem dælt er inn í lögn frá borholu með innsprautunarnál sem tryggir fullnægjandi blöndun við vatn og gufu í lögninni. Sýnum af vatni og þéttivatni er safnað neðar á lögninni og styrkur ferilefnanna mældur í sýnunum. Þynning ferilefnanna er notuð til að ákveða vatns og gufurennslið. ÍSOR beitir aðferð sem Brian Lovelock lýsti árið 2001 en þar er Na-Fluorescein notað sem ferilefni fyrir vatnsfasann og alkóhól (ísóprópanól) fyrir gufufasann. TFT-mælingar eru í auknum mæli notaðar við eftirlit á háhitasvæðum þar sem afköst holna og vermi rennis úr þeim ásamt öðrum gögnum veita mikilvægar upplýsingar um ástand jarðhitageyma.

TFT-mælingar hafa allmarga kosti umfram hefðbundnar aðferðir við mat á rennsli og afköstum jarðhitaholna. Aðferðin truflar ekki rennsli úr þeim holum sem verið er að mæla hverju sinni og því má beita mælingunum án þess að hafa áhrif á rekstur vinnsluholna. Fyrir vikið er einnig líklegra að ná rennslismælingu við jafnari og eðlilegri aðstæður en þegar holur eru teknar úr rekstri fyrir mælingar. Aðferðin gefur einnig kost á miklum sveigjanleika í mælingum.