[x]

Olíurannsóknir

ÍSOR veitir stjórnvöldum sérfræðiaðstoð við undirbúning á sérleyfum til rannsókna og vinnslu kolvetnis. Vinnan hefur meðal annars falist í að koma upp gagnasafni um landgrunn Íslands. Eins hefur ráðgjöf ÍSOR falist í að túlka mæligögn með tilliti til líklegra auðlinda og leggja mat á hvar líkur eru á að olíu- og gaslindir sé að finna.

Gagnasafn um landgrunn Íslands

Kortið sýnir rannsóknarsvæðin norðaustur af Íslandi, Jan Mayen hrygginn og Drekasvæðið. Eins austur af landinu.Gagnasafnið inniheldur gögn sem tengjast landgrunni Íslands. Þetta eru yfirlitsgögn um hafsbotninn og upplýsingar um rannsóknarleiðangra, einkum hljóð­endur­varpsmælingar og fjölgeislamælingar. Alls eru um 1100 kort, þversnið og önnur pappírsgögn skráð í gagnagrunninn og af því er um helmingur skannaður inn á starfrænt form. Gögnin eru frá því um miðja 20. öld. Nokkuð af gögnunum er hnitsett og vigrað. Gögnin eru einkum af Drekasvæðinu austur og norð­austur af landinu. Verkið var unnið í samstarfi við og fyrir Orkustofnun.

Stór hluti gagnanna er birtur í svokallaðri Land­grunns­vefsjá sem er upplýsingaveita um  leyfissvæðin fyrir sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetna.

Rannsóknargögn

  • hljóðendurvarpsmælingar
  • setlagarannsóknir
  • fjölgeislamælingar
  • þyngdarmælingar
  • segulmælingar
  • bylgjubrotsmælingar
  • botnsýni

Túlkun gagna

1. Auðlindamat vegna kolvetnisleitar

ÍSOR hefur veitt íslenskum stjórnvöldum sérfræði­ráðgjöf á mögulegum kolvetnisauðlindum og vænlegum leitarsvæðum á landgrunninu við undir­búning útboða og mat á umsóknum um rannsóknar­leyfi. Á grundvelli jarðeðlisfræðilegra mælinga var gert þrívítt jarðfræðilíkan af setlagastafla Dreka­svæðisins. Líkanið gefur mynd um útbreiðslu setlaga, þróun jarðmyndana í tímans rás og hvort aðstæður gætu hafa verið hagstæðar til myndunar olíu og samsöfnunar hennar í jarðlagagildrur.

ÍSOR notaði jarðvísindahugbúnaðinn PETREL sem er í senn gagnagrunnskerfi og tæki til vinnslu og túlkunar gagna.

2. Jan Mayen svæðið

Myndunarsaga Jan Mayen-hryggjarins.Sérfræðiráðgjöf ÍSOR til stjórnvalda miðaði m.a. að því að rannsaka jarðfræði Jan Mayen hryggjarins. Það rannsóknarmat er haft til hliðsjónar þegar metnar eru líkur á olíu á Drekasvæðinu. Með jarðfræðilegum og jarðeðlisfræðilegum gögnum er unnt að rekja jarðsögu Jan Mayen svæðisins og er það talið hafa skyldleika við setlagatrog á Austur-Grænlandi, land­grunn Vestur-Noregs og landgrunn Færeyja og Hjaltlands. Á þeim svæðum hefur fundist olía í vinnanlegu magni.
 
Niðurstöður rannsókna bera vitni um setlög sem mynduðust áður en N-Atlantshafið opnaðist og gætu hugsanlega verið allt frá fornlífsöld. Þykkan stafla af hugsanlegu seti má einkum sjá undir vesturhlíðum svæðisins í Jan Mayen dældinni en slíkur stafli er frumskilyrði fyrir mögulegt kolvetnakerfi.

Árið 2011 náðust ný hafsbotnssýni frá Jan Mayen svæðinu og fundust í þeim vísbendingar um olíuleka frá júratímabilinu í nágrenni við eitt af stóru misgengjabeltunum. Það teljast jákvæðar vísbendingar um hugsanlegan kolvetnaforða á svæðinu. Meiri líkur eru taldar á gasi á djúpstæðum svæðum og þar sem eldvirkni hefur verið til staðar en meiri möguleikar á olíu eru á grynnri hlíðasvæðum.

Rannsóknum og kortlagningu verður haldið áfram hjá ÍSOR í samstarfi við Háskóla Íslands og verður sjónum einkum beint að Jan Mayen meginlandsflekanum. Þær rannsóknir tengjast athugunum sem unnið er að á Grænlandi, í Noregi og á Bretlandi til að auka þekkingu á eðli uppbyggingar og setmyndunar á svæðinu og nýta þær sem grunn fyrir frekari rannsóknir á útbreiðslu kolvetnissambanda.

Fyrirlestrar frá ráðstefnum um olíurannsóknir

Sjá ennfremur á vef Orkustofnunar.