[x]

Landgrunnsmál

Ísland gerir tilkall til þriggja landgrunnssvæða utan 200 sjómílna. Þau eru Ægisdjúp, Reykjaneshryggur og Hatton-Rockall svæðið. Svæðin eru samtals rúmlega 1.400.000 km² að stærð, eða um fjórtánfalt landsvæði Íslands. Það eru verulegir hagsmunir fyrir Ísland í því að tryggja sem víðtækust landgrunnsréttindi, jafnvel þótt ekki sé enn að fullu ljóst hvaða auðlindir svæðin hafa að geyma. ÍSOR veitir stjórnvöldum vísindalega ráðgjöf vegna afmörkunar landgrunns Íslands. Um er að ræða rannsóknarvinnu, gagnaöflun og túlkun gagna. Auk þess hafa sérfræðingar ÍSOR tekið þátt í að kynna kröfur Íslendinga fyrir landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna og verið ráðgjafar í samningaviðræðum milli ríkja um skiptingu landgrunnssvæða..

Gagnaöflun og túlkun

  • Fjölgeisla dýptarmælingar. Lengd mælilína var um 32.000 km og þöktu þær um 100.000 km2 sem samsvarar stærð Íslands. Hafrannsóknastofnun sá um famkvæmd þeirra.
  • Önnur dýptargögn. Viðbótargögn voru fengin úr opnum gagna­grunnum.
  • Jarðsveiflumælingar (hljóð­endur­kasts- og bylgju­brots­mælingar) voru gerðar til að kanna setþykkt og til að fá gleggri mynd af jarðsögu svæðisins. ÍSOR hafði yfirumsjón með öflun mælinganna en erlendir aðilar gerðu mælingarnar.
    • Hljóðendurkastsmælingar. Mælingar voru gerðar í Ægisdjúpi, austan í Reykjaneshrygg, á Íslands-Færeyjahrygg og á Hatton-Rockall grunni, samtals um 4.800 km.
    • Bylgjubrotsmælingar. Mældir voru um 290 km á Íslands-Færeyja­hrygg.
  • Þróaðar voru nýstárlegar aðferðir til að greina í sundur helstu landslagsþætti landgrunnsins, þ.e. grunnið, hlíðina, hlíðardrögin og djúpsjávarbotninn, en sjálfri greiningunni lýkur með ákvörðun á hlíðarfætinum. Frá hlíðarfætinum eru síðan útmörk landgrunnsins reiknuð sem 60 mílna samhangandi hringbogar.

Greinargerð Íslands um landgrunn utan 200 mílna

Greinargerð Íslands um afmörkun landgrunns á Ægisdjúpi og á vestur- og suðurhluta Reykjanes­hryggjar var afhent landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna í New York 29. apríl 2009. Hægt er að lesa samantekt greinargerðarinnar hér neðar á síðunni í PDF skjali.
Niðurstöðu um útmörk landgrunnsins er að vænta í byrjun árs 2015.

Unnið er að greinargerð fyrir austurhluta Reykja­nes­hryggjar og Hatton-Rockall svæðið.