[x]
3. apríl 2017

Yfirlýsing frá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) vegna meintrar arsenmengunar

Undanfarið hafa fjölmiðlar greint frá meintri arsenmengun í sýnum sem tekin voru í grennd við verksmiðju United Silicon í Helguvík. Eins hefur verið greint frá mistökum eða galla í sýnatöku eða niðurstöðum efnagreininga. Greint hefur verið frá því að efnasýnatakan hafi verið í höndum fyrirtækisins Orkurannsóknir ehf, stundum kallað Orkurannsóknir Keilis. Í sumum fréttum og umfjöllunum hefur því ranglega verið haldið fram að um sé að ræða Íslenskar orkurannsóknir.

Af þessu tilefni lýsir ÍSOR því yfir að  fyrirtækið Orkurannsóknir ehf (Orkurannsóknir Keilis) er algjörlega ótengt Íslenskum orkurannsóknum. ÍSOR hefur hvergi komið nálægt þeim sýnatökum eða efnagreiningum sem gerðar hafa verið vegna verksmiðju United Silicon.

ÍSOR rekur hins vegar sérhæfða efnarannsóknarstofu sem sérstaklega er búin til efnagreininga fyrir jarðhitaiðnaðinn og til margs konar umhverfiseftirlits. Efnarannsóknarstofa ÍSOR hefur þjónað íslenskum jarðhitaiðnaði í marga áratugi.

ÍSOR harmar að sumir fjölmiðlar skuli hafa blandað þessum aðilum saman. Í raun vekur það furðu að Keilir skuli hafa valið dótturfyrirtæki sínu nafn sem líkist svo mjög nafni ÍSOR að auðvelt er að rugla þessum fyrirtækjum saman.