[x]
3. mars 2021

Yfirlit um síðasta gosskeið á Reykjanesskaga – 800-1240 e.Kr.

  Á kortinu eru sýnd þau hraun sem runnu á síðasta gosskeiði á Reykjanesskaga.

Á kortinu eru sýnd þau hraun sem runnu á síðasta gosskeiði á Reykjanesskaga.

Á Skaganum eru sex eldstöðvakerfi sem raða sér skáhallt eftir honum í NA-SV stefnu. Vestast er Reykjaneskerfið og austar koma kerfi kennd við Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og að síðustu Hengil. Rannsóknir hafa leitt í ljós að á seinni hluta Hólósen (sem nær yfir síðustu 11.700 árin) hefur gosið í kerfunum á 900-1100 ára fresti. Um fyrri hluta Hólósen er meiri óvissa sem orsakast af færri og ónákvæmari aldursgreiningum. Hengilskerfið og Fagradalsfjallakerfið fylgja ekki gosmynstri hinna kerfanna en þar hafa gos verið strjálli og mun tíðari á fyrri hluta Hólósen en þeim seinni. Allgóð þekking er til staðar um þrjú síðustu gosskeiðin á Reykjanesskaga sem stóðu yfir fyrir 3000-3500 árum, 1900-2400 árum og svo 800-1240 e.Kr.  Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár en á þeim þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk en þó yfirleitt ekki á sama tíma. Einkennist gosvirknin af eldum sem standa í nokkra áratugi hver. Hraunin renna frá gossprungum sem geta orðið allt að 12 km langar. Stök hraun eru innan við 25 km2 að stærð, flest mun minni. 

Á síðasta gosskeiði hófst gosvirknin um 800 e.Kr. í Brennsteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Rannsóknir benda til að þar hafi gosið samtímis eða því sem næst. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraun. Á 10. öld gaus síðan aftur í Brennisteinsfjallakerfinu og runnu þá m.a. Svínahraunsbruni (Kristnitökuhraun) í Þrengslum, Húsafellsbruni í Heiðmörk, Breiðdalshraun, Selvogshraun og Tvíbollahraun/Hellnahraun. Ekki er útilokað að einhver þessara hrauna hafi runnið á fyrri hluta 11. aldar. Um hálfri annarri öld eftir að þessum eldum lauk hófst gos í Krýsuvíkurkerfinu um miðja 12. öld, líklega árið 1151. Nefnast þessir eldar Krýsuvíkureldar. Ritaðar heimildir benda til að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, sem er þeirra syðst, Mávahlíðahraun og Kapelluhraun. Ögmundarhraun eyddi a.m.k. einu býli sem sjá má merki um í óbrennishólmum. Eftir um 20 ára hlé hefjast síðan Reykjaneseldar sem stóðu yfir á tímabilinu 1210-1240 og marka lok um 450 ára langs eldsumbrotaskeiðs. 

Allgóð vitneskja er fyrir hendi um framgang Reykjaneselda 1210-1240. Eldarnir hófust með gosi í sjó við Kerlingarbás á Reykjanesi (skammt norður af Valahnúk) og hlóðust þar upp tveir gjóskugígar hvor á eftir öðrum, þeir eru að hluta til varðveittir á ströndinni. Drangurinn Karl sem stendur í sjó 300 m undan landi er hluti af öðrum þessara gíga. Eftir þetta færist gosvirknin á land og rann þá Yngra-Stampahraun frá 4 km langri gígaröð, líklega árið 1211. Samkvæmt rituðum heimildum gaus að minnsta kosti sex sinnum í sjó í Reykjaneseldum. Um upptök þeirra gosa er ekki vitað en vísbendingar eru um að Eldey hafi myndast í upphafi eldanna og á sjókortum má sjá tvo áberandi hóla á sjávarbotni 3-4 km út af Reykjanesi í framhaldi af Stampagígaröðinni á landi (sjá kort). Líklegt er að þar hafi orðið neðansjávargos. Dreifing gjósku frá þessum gosum var lítil á landi nema í tveimur tilvikum. Útbreiddasta gjóskulagið má rekja austur um Reykjanesskaga, í Þingvallasveit og um lágsveitir Borgarfjarðar. Lag þetta er nefnt Miðaldalagið og talið vera frá árinu 1226. Annað lag, sem gæti verið frá árinu 1231, er hægt að rekja austur að Álftanesi. Um tuttugu árum eftir Yngra-Stampagosið hófst sprungugos í Svartsengiskerfinu og á tímabilinu 1230-1240 runnu Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Eftir það lýkur eldunum og hefur ekki orðið hraungos á Reykjanesskaga síðan.  

Að því gefnu að sami taktur haldist í eldvirkni Skagans og verið hefur síðustu árþúsundin er ljóst að óðum styttist í að til tíðinda dragi. Í Brennisteinsfjallakerfinu eru liðin a.m.k. 950 ár frá síðasta gosi en færri í vestari kerfunum.

Helstu heimildir eru jarðfræðikort af Reykjanesskaga 1:100 000 (2. útg., 2016) og kafli um Reykjanesskaga í bókinni Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar (2013).
Lega hraunjaðra í sjó byggist á fjölgeislamælingum LHG.

Kortið hér að ofan er hægt að skoða í þrívídd sem og önnur jarðfræðikort á vefsíðu ÍSOR.

Samantekt: Magnús Á. Sigurgeirsson jarðfræðingur hjá ÍSOR, 3. mars. 2021.