[x]
24. ágúst 2005

Vísindastörf á Hengilssvæði

Um þessar mundir er flokkur rússneskra vísindamanna frá háskólanum í Moskvu við mælingar á Hengilssvæði. Mælingarnar eru liður í fjölþjóðaverkefninu INTAS. Verkefnið er styrkt af Evrópubandalaginu og er ætlað að styrkja fyrrum sovétlýðveldi til samstarfs við EES ríkin. Að verkefninu standa Ísland, Ítalía, Moskvuháskóli, Vísindaakademía Moskvu, Úkraína og Georgía. ÍSOR kemur að verkefninu fyrir hönd Íslendinga og hefur yfirumsjón með því.Mælingarnar, svonefndar MT-mælingar ( magneto-telluric), miða að því að sjá viðnám í jörðu, allt niður á 15-20 kílómetra dýpi. Við mælingarnar eru notuð mælitæki frá Kanada alls 5 mælisett.  Hver mæling tekur einn sólarhring þannig að fimm mælingar nást á sólarhring ef vel gengur og ekkert óvænt kemur upp á. Það má geta þess að ÍSOR á aðeins eitt sett slíkra mælitækja, það eina í landinu.Mælingarnar hafa gengið mjög vel þrátt fyrir rysjótt veður stundum, og hafa náðst nú þegar á fimmta tug mælinga. Mælingarnar nýtast við líkangerð af jarðhitakerfunum á Hengilssvæði og við það að auka skilning manna á jarðhitanum þar.