[x]
14. október 2005

Vinnslueftirlitsferð í október 2005

Dagana 3. til 8. október fóru tveir starfsmenn jarðfræðideildar ÍSOR í árlega sýnatökuferð um Vestur- og Norðurland. Ferðir af þessu tagi hafa verið árlegar frá því um miðjan níunda áratuginn og er megintilgangurinn að safna sýnum af vatni úr vinnsluholum hitaveitna í þessum landshlutum. Samhliða sýnatöku hjá hitaveitum er mældur hiti vatnsins, styrkur uppleysts súrefnis og brennisteinsvetnis. Sýnin eru síðan efnagreind og þannig fylgst með hugsanlegum breytingum í jarðhitakerfum sem geta orðið vegna vinnslu. Þessi gagnasöfnun er hluti af vinnslueftirliti hjá hitaveitunum og er nauðsynlegur þáttur þess að reka hitaveitu á hagkvæman og sjálfbæran hátt. Ekki síst er mikilvægt að viðhalda góðum tengslum við starfsmenn hitaveitna vítt og breitt um landið. Að þessu sinni hófst ferðin á Snæfellsnesi og henni lauk í Þingeyjarsýslu. Komið var við á 40 mælistöðum þar sem safnað var sýnum til efnagreininga á heitu og köldu vatni auk ýmissa annarra mælinga og athugana.