[x]
5. nóvember 2013

Vinnsluboranir að hefjast á ný á Dóminíku í Karíbahafi

Borsvæðið á Trafalgar á Dóminíku í apríl 2012. Ljósmynd Magnús Á. Sigurgeirsson.Vinnsluboranir eftir jarðhita eru að hefjast á ný á eldfjallaeyjunni Dóminíku í Karíbahafi. Til stendur að bora tvær 1200-1800 m djúpar holur í þessum áfanga jarðhitaverkefnisins.

ÍSOR hefur hannað tvær nýjar borholur fyrir stjórnvöld á Dóminíku, eina niðurrennslisholu og eina vinnsluholu. Áætlað er að boranir hefjist í næstu viku. Jarðboranir hf. munu sjá um borverkið. ÍSOR sér um ráðgjöf í borverkinu sem felur í sér borholujarðfræði, mælingar og afkastamælingar í holunum og umhverfiseftirlit, það er mælingar á brennisteinsvetni. Reiknað er með að tveir til þrír starfsmenn frá ÍSOR verði meira og minna á eyjunni fram í mars á næsta ári.

Í fyrra voru boraðar þrjár grannar rannsóknarholur á Dóminíku. ÍSOR sá um hönnun á þeim holum, ráðgjöf, mælingar og umhverfiseftirlit. Borun holnanna tókst vel og geta þær gefið nokkur MW í raforku. Vonir standa til að þessi nýja vinnsluhola dugi til að hægt sé að byggja litla jarðhitavirkjun til að sinna rafmagnsþörf Dóminíkubúa. Íbúarnir hafa að miklu leyti þurft að treysta á dísilrafstöðvar með tilheyrandi kostnaði og mengun. Í undirbúningi hafa verið áætlanir um að virkja töluvert meira á eyjunni og selja raforku til nærliggjandi eyja.