[x]
12. apríl 2018

Viljayfirlýsing um væntanlegt samstarf á sviði jarðhita

Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) og jarðfræðistofnun Kína, China Geological Survey (CGS), undirrituðu viljayfirlýsingu í gær um væntanlegt samstarf á sviði jarðvísinda. Sérstök áhersla er lögð á samstarf á sviði jarðhita.

Bjarni Richter sviðstjóri háhita hjá ÍSOR og Wang Yan forstjóri CGS skrifuðu undir viljayfirlýsinguna. Í henni er m.a. tekið fram að ÍSOR og CGS ætli sér í frekara samstarf með sérstaka áherslu á jarðhita. Það getur þýtt aukin tengsl á milli sérfræðinga, þjálfun og annað samstarf almennt.

 Kína er eitt fjölmennasta ríki heims og jarðfræðistofnun þeirra er væntanlega sú fjölmennasta. Hjá CGS starfa um sjö þúsund manns. Orkunotkun Kínverjar hefur að miklu leyti verið bundin við jarðefnaeldsneyti og væntingar eru miklar með endurnýjanlega orkugjafa. Mikil uppsveifla hefur m.a. verið í húshitun með jarðvarma í Kína. Kínverjar eru nú stærstir á sviði hitaveitna í heiminum miðað við íbúafjölda. Því takmarki hefur m.a. verið náð með töluverðri aðstoð Íslendinga. Íslenska fyrirtækið Arctic Green Energy hefur á undanförnum árum, í samstarfi við kínverska fyrirtækið Sinopec, komið á fót hitaveitum á nokkrum stöðum í Kína.

ÍSOR gerir sér vonir um að þetta sé fyrsta skrefið í átt að farsælu samstarfi við kínversku jarðfræðistofnunina. ÍSOR hefur fram til þessa tekið þátt í nokkrum verkefnum í Kína. Eins hafa sérfræðingar ÍSOR tekið þátt í að þjálfa um 87 kínverska sérfræðinga í gegnum Jarðhitaskólann.

Bjarni Richter og Wang Yan við undirrituninin viljayfirlýsingarinnar. Viðstaddir undirritun voru: Sendiherra Kína á Íslandi, Jin Zhijian, og sendinefnd frá jarðfræðistofnunni CGS og fulltrúar ÍSOR og Arctic Green Energy.