[x]
1. febrúar 2018

Viljayfirlýsing ÍSOR og CEGE á Indlandi í jarðhitamálum

Um miðjan janúar fór sendinefnd frá Íslandi til Indlands til að ræða samstarf í jarðhitamálum. Undirrituð var samstarfsyfirlýsing ÍSOR og CEGE, öndvegisseturs í jarðhita við olíuverkfræðiháskólann í Ahmendabad. 

Í sendinefndinni voru Bjarni Richter og Ólafur G. Flóvenz frá ÍSOR, Gunnar Ingi Gunnarsson frá Verkís, Ingimar Haraldsson frá Jarðhitaskólanum og Guðni Jóhannesson, orkumálastjóri. Sendiráð Íslands í Delhi skipulagði ferðina.  Tilgangur ferðarinnar var tvíþættur, annars vegar að funda með indverska ráðuneytinu um framgang mála á grundvelli gamallar viljayfirlýsingar milli Íslands og Indlands um samstarf í jarðhitamálum og hins vegar að taka þátt í jarðhitaráðstefnu á vegum Olíuverkfræðiháskólans í Ahmedabad. 

Vitað er um jarðhita á um 300 stöðum á Indlandi, mest lághita og millihita. Vænlegustu svæðin eru talin vera í Himalajafjöllum þar sem  ÍSOR hefur áður unnið að litlu þróunarverki  á vegum norskrar stofnunar. Auk þess er Tattapani-svæðið á Mið-Indlandi talið álitlegt. 

Ahmedabad er stærsta borg Gujarad-fylkis á Indlandi og jafnframt fimmta stærsta borg Indlands með um 5,6 milljónir íbúa. Þar er myndarlegur og vel búinn verkfræðiháskóli sem sérhæfir sig í og kennir sig við olíumál.  Þar hefur verið komið upp öndvegissetri í jarðhitamálum, CEGE, Center of Excellence for Geothermal Energy, sem skipulagði jarðhitaráðstefnuna. Þar fluttu Íslendingarnir allir fyrirlestra að sendiherranum, Þóri Íbsen, meðtöldum.  Þetta var fróðleg ráðstefna um stöðu jarðhitamála á Indlandi. Jafnframt var Íslendingunum boðið í skoðunarferð til Dolera þar sem um 50°C vatn er unnið af um 300 m dýpi úr setlögum og nýtt á varmadælur til að kæla húsbyggingu og til baða og þvotta.

Myndin hér að neðan, frá íslenska sendiráðinu í Dehli, er frá ráðstefnunni við undirritun samstarfsyfirlýsingar ÍSOR og CEGE í jarðhitamálum.