[x]
14. september 2020

Viðnám og kvika undir Heklu

Hekla Dublin Institute of Advanced Studies (DIAS) ásamt jarðvísindadeild (JVD) Háskóla Íslands ákváðu í samvinnu við ÍSOR að mæla viðnám við Heklurætur í því skyni að freista þess að staðsetja kvikuhólfið undir Heklu. Lengi var talið að undir Heklu væri grunnstætt kvikuhólf, á um 6-8 km dýpi. Samkvæmt aflögunarmælingum (e. volumetric strain) og færslum á yfirborði (e. InSAR og GPS) er kvikan á 14-20 km dýpi. Jarðskjálftar benda til hins sama. Viðnámsmælingarnar eru hluti af Eurovolc-verkefninu (https://eurovolc.eu) sem ÍSOR er óbeint þátttakandi í. Flestar mælingar eru á rúmlega 40 km langri línu norðaustan við fjallið, þvert á gossprungu Heklu. Línan liggur yfir Búrfell að Laufafelli í suðaustri en ekki var talið ráðlegt að klifra upp á fjallið vegna goshættu. Mælingum lauk um miðjan septembermánuð sl. og voru gerðar um 20 mælingar með MT- og TEM-aðferð. Þátttakendur voru Duygu Kiyan frá DIAS, Ásdís Benediktsdóttir, Gylfi Páll Hersir og Jón Einar Jónsson frá ÍSOR ásamt Magnúsi Tuma Guðmundssyni og Þorsteini Jónssyni frá JVD HÍ. Vel gekk að safna gögnum enda var veður hið þokkalegasta. Þetta var jafnframt frumraun fjögurra nýrra MT-tækja sem keypt voru með fjárhagslegum stuðningi frá Rannís.

Eðlisviðnám bergs lækkar verulega við mjög háan hita. Það gerist þegar hitastig hefur náð nokkur hundruð gráðum og hlutbráðnun fer að eiga sér stað. Því hefur viðnámsmælingum stundum verið beitt til þess að finna og staðsetja kvikuhólf og innskot undir eldstöðvum hér og þar í heiminum. ÍSOR mældi viðnám við Eyjafjallajökul ári eftir eldgosið 2010 í samvinnu við Dublin Institute of Advanced Studies (DIAS). Mælingar benda til þess að neðan gosstöðvanna á Fimmvörðuhálsi (rauð ör norðan mælingar 122 á meðfylgjandi mynd) sé lóðréttur lágviðnámsskrokkur. Til þess að meta stærð skrokksins hefðu mun fleiri mælingar þurft að koma til. Gráu punktarnir eru jarðskjálftar sem tengdust uppstreymi kvikunnar.

Ljósmyndirnar hér að neðan tóku þeir Jón Einar Jónsson og Gylfi Páll Hersir við rætur Heklu. Neðsta myndin er af viðnámssniði sem nær frá Skógum í suðri að Hattfelli í norðri þvert yfir Fimmvörðuháls, rauða örin er við gosstöðvarnar (Miensopust o.fl., 2014).

Viðnámsmælt við rætur Heklu.

 

Viðnámsmælt við Heklurætur.

Jón Einar Jónsson jarðeðlisfræðingur að lesa á mælitækin.

Viðnámssnið frá Skógum í suðri að Hattfelli í norðri þvert yfir Fimmvörðuháls. Rauða örin er við gosstöðvarnar (Miensopust o.fl., 2014).