[x]
25. október 2013

Vel heppnuð vinnsluhola fyrir Selfossveitur

Mynd sýnir yfirlit um borum ÓS-3 og jarðborinn Nasa að störfum. Eins og sést til vinstri rennur lítil skolvatnsbuna út í Ölfusá. Þegar þarna var komið sögu hafði ekki verið borað niður í heitar og vel vatnsgefandi innrennslisæðar. Ljósmynd Kjartan Þorvarðarson, Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða. Lokið er borun á nýrri og velheppnaðri vinnsluholu fyrir Selfossveitur í Ósabotnum, sem eru á bökkum Ölfusár skammt ofan bæjarins. Þetta er þriðja vinnsluholan á svæðinu en þar hafa Selfossveitur virkjað heitt vatn síðan árið 2000. Ósabotnar eru snertispöl ofan við eldra vatnsvinnslusvæði veitunnar, sem er í Þorleifskoti, en þaðan hefur heita vatnið fengist síðan upp úr 1950.

Nýja holan í Ósabotnum varð 1500 m djúp, boruð með jarðbornum Nasa frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða. ÍSOR var ráðgjafi Selfossveitna vegna verksins og sá um að staðsetja holuna, ákveða gerð hennar, frágang fóðringa og annaðist eftirlit með borverkinu. Unnið er að fullnaðarfrágangi og jarðlagagreiningu.

Strax eftir stutta afkastamælingu holunnar í borlok var orðið ljóst að um afar vatnsgefandi holu var að ræða. Að sögn Þórólfs H. Hafstað verkefnissjóra hjá ÍSOR var afráðið að dæla hóflega, eða þannig að hægt yrði að mæla vatnsmagnið af nákvæmni. Holan var hitamæld og gerð stutt þrepadæling með blástursprófi (jektor) þann 15. október síðastliðinn. Í ljós kom að hitinn á vatninu úr holunni var 83°C við um 100 l/s úr dælingu. Vatnsborðslækkun vegna dælingar var lítil, eða um ca 20 metrar. Athygli er vakin á því að um skammtímapófun var að ræða og óvisst um áhrif á aðrar vinnsluholur á svæðinu. Vinnslueftirlit mun sýna hver vatnsvinnslugeta jarðhitasvæðisins er þegar til lengri framtíðar er litið.

ÍSOR hefur verið ráðgjafi og annast reglulegt vinnslueftirlit frá upphafi vatnsvinnslu í Ósabotnum. Vonast er til að vatnið úr nýju holunni eigi eftir að ylja íbúum Árborgar um nokkra framtíð.