[x]
1. október 2018

Veglegur rannsóknarstyrkur til að þróa aðferðir til sporlausrar nýtingar jarðhita

ÍSOR, ásamt innlendum og erlendum samstarfsaðilum, hefur hlotið ríflega tveggja milljarða króna styrk úr rannsókna og nýsköpunaráætlun ESB, Horizon 2020. Styrkurinn er til verkefnisins GECO. Verkefnið miðar að því að þróa áfram aðferðir til sporlausrar nýtingar jarðhita. 

Vinnuframlag ÍSOR verður umfangsmest af þeim 18 fyrirtækjum og stofnunum sem vinna saman að verkefninu, en það er Orkuveita Reykjavíkur sem leiðir samstarfið.

Markmið GECO verkefnisins, sem stendur fyrir Geothermal Emission Control, er að þróa jarðhitavirkjanir með sem allra minnsta losun koltvíoxíðs (CO2) og brennisteinsvetnis (H2S). Það byggir að stórum hluta á CarbFix-niðurdælingaraðferðinni sem þróuð hefur verið við Hellisheiðarvirkjun undanfarinn áratug. Þar er koltvíoxíð og brennisteinsvetni leyst upp í vatni og dælt niður í berggrunninn þar sem það binst í steindunum kalsíti og pýríti. Aðferðin verður nú þróuð enn frekar og niðurdæling reynd á Ítalíu, Tyrklandi og Þýskalandi. Auk þess verður unnið að því hagnýta jarðhitagastegundir en lykillinn að því er að skilja að brennisteinsvetni og koltvíoxíð. Innan GECO verður einnig unnið að aðferðum til umhverfissvöktunar á jarðhitasvæðum og að því að auka skilning á hegðun og afdrifum jarðhitagassins eftir niðurdælingu.

Þættir ÍSOR í verkefninu lúta að líkangerð byggðri á jarðfræði, forðafræði og jarðefnafræði, umhverfisvöktun og fjarkönnun m.a. með dróna og þróun efnagreiningaraðferða og staðla.

Verkefnið er til fjögurra ára. Innlendir þátttakendur eru auk ÍSOR og Orkuveitu Reykjavíkur, GEORG (rannsóknarklasi í jarðhita) Orka náttúrunnar og Háskóli Íslands. Auk þeirra eru þátttakendur frá Frakklandi, Ítalíu, Spáni, Hollandi, Tyrklandi, Bretlandi, Þýskaland og Noregi.

Úr myndasafni ÍSOR

Ljósmynd Tobias B. Weisenberger