[x]
26. október 2006

Vatnamælingar flytjast til ÍSOR

Áformað er að rekstur vatnamælinga Orkustofnunar flytist til ÍSOR um næstu áramót. Þetta kom fram í máli Kristjáns Skarphéðinssonar, ráðuneytisstjóra á fundi með starfsmönnum ÍSOR og Orkustofnunar mánudaginn 23. október. Íslenskar orkurannsóknir voru stofnaðar með lögum vorið 2003 og tóku þær við allri starfsemi rannsóknasviðs Orkustofnunar. Tilefni breytinganna voru ný raforkulög, sem færðu í hendur Orkustofnunar meira eftirlitshlutverk með orkuiðnaði landsins en áður var. Því þótti nauðsynlegt að aðgreina stjórnvalds- og eftirlitsstarfsemi Orkustofnunar frá sölu á rannsóknaþjónustu. Það væri óeðlilegt að sama stofnun færi í senn með eftirlits- og leyfisveitingavald gagnvart orkuiðnaði en væri jafnframt mjög fjárhagslega háð þessum sama iðnaði gegnum verksölu. Nefnd sem vann að undirbúningi breytinganna árið 2003 lagði til að bæði vatnamælingar og rannsóknasviðið færu frá Orkustofnun til nýrrar stofnunar en þegar til kom þótti ástæða til að kanna betur hvort vatnamælingar ættu fremur heima með öðrum stofnunum en Íslenskum orkurannsóknum. Nú þremur árum síðar var það niðurstaða ráðuneytisins að flytja starfsemi vatnamælinga til ÍSOR um næstu áramót. Með þeirri ráðstöfun verður Orkustofnun loks fjárhagslega óháð sölutekjum frá orkufyrirtækjum sem ætti að eyða tortryggni um hagamunaárekstra í starfi hennar. Þegar er komin í gang skipuleg vinna við undirbúning þessara breytinga. Einsýnt er að þessi tilfærsla mun til lengri tíma litið leiða til hagræðingar en umfram allt víkkar starfsvið ÍSOR og gerir ÍSOR betur í stakk búið til að takast á við fjölþætt verkefni á sviði orkurannsókna jafnt innan lands sem utan.