[x]
11. júlí 2006

Valgarður Stefánsson látinn

Valgarður Stefánsson, eðlisfræðingur og fyrrum starfsmaður Jarðhitadeildar Orkustofnunar, forvera ÍSOR, lést aðfaranótt 10. júlí, 67 að aldri.

Valgarður hóf störf sem sérfræðingur við jarðhitaleit á Jarðhitadeild árið 1973 að afloknu háskólanámi í Svíþjóð. Hann haslaði sér fljótlega völl á sviði borholumælinga og varð deildarstjóri borholumælingadeildar. Hann leiddi þar mikið uppbyggingarstarf á sviði borholumælinga og forðafræði. Hann varð fljótlega einn helsti sérfræðingur landsins í rannsóknum á háhitasvæðum og kom m.a. mikið að uppbyggingu Kröfluvirkjunar og síðar Nesjavallavirkjunar og var skipulag háhitarannsókna honum mjög hugleikið.

Árið 1985 réðst Valgarður til starfa hjá Sameinuðu Þjóðunum í New York sem sérfæðingur á sviði jarðhitamála. Í því starfi sinnti hann jarðhitamálum víða um heim og öðlaðist mikla og yfirgripsmikla þekkingu á þeim málefnum. Eftir rúm fimm ár sneri hann aftur til fyrri starfa á Jarðhitadeild og vann þá meðal annars að því að kanna arðsemi jarðgufuvirkjana til raforkuframleiðslu og virkjanatilhögun. Lengstum hafði verið talið hagkvæmast að virkja hvert háhitasvæði í einni stórri virkjun sem fullnýtti svæði, en Valgarður benti á að hagkvæmara væri að virkja svæðin í 20-30 MW þrepum uns þau yrðu fullnýtt. Þetta er sú tilhögun sem orkufyrirtækin vinna eftir í dag þó þrepin séu heldur stærri en Valgarður ræddi um fyrir 10 árum síðan.

Við skipulagsbreytingar á Orkustofnun árið 1997 hóf Valgarður störf sem sérfræðingur og ráðgjafi stjórnvalda í jarðhitamálum á Auðlindadeild stofnunarinnar. Hann leiddi m.a. vinnuhóp innan Orkustofnunar og Íslenskra orkurannsókna sem fjallaði um endurnýjanleika jarðhitasvæðanna og sjálfbæra nýtingu þeirra. Þetta var frumherjavinna eins og svo margt sem Valgarður tók sér fyrir hendur og stuðlaði að því að halda Íslendingum í fremstu röð á sviði jarðhitaþekkingar í heiminum. Frá árinu 2004 hefur hann gegnt  starfi framkvæmdastjóra Alþjóðajarðhitasambandsins en var áður í stjórn þess.

Valgarður var mikilsvirtur og alþjóðlega þekkur sérfræðingur í jarðhitamálum jafnframt því að vera fær vísindamaður á því sviði, sem átti drjúgan þátt í uppbyggingu jarðhitaiðnaðarins á Íslandi.

Íslenskar orkurannsóknir senda konu hans, Ingibjörgu Guðlaugsdóttur, og öðrum ástvinum innilegar samúðarkveðjur.

Myndin er af Valgarði Stefánssyni á borstað við Hágöngur í september 2003.