[x]
27. október 2009

Útibú ÍSOR tíu ára

Um þessar mundir eru liðin tíu ár frá því að fyrirrennari Íslenskra orkurannsókna, Rannsóknasvið Orkustofnunar, setti á laggirnar starfsstöð á Akureyri í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Þetta hefur verið viðburðaríkur áratugur og útibúinu hefur svo sannarlega vaxið fiskur um hrygg. Nú eru tíu af tæplega 90 starfsmönnum ÍSOR búsettir á Akureyri en þegar mest var voru um 13 stöðugildi við útibúið.

Starfsmenn við útibúið áttu stóran þátt í árangursríkum orkuöflunarverkefnum á vegum Norðurorku bæði á Laugalandi við Þelamörk og á Hjalteyri. Hjalteyrarkerfið er með öflugri lághitakerfum á landinu og hola LÞN-10 á Þelamörk gefur 103°C heitt vatn og er hún því heitasta vinnsluhola Norðurorku. Mikill þungi hefur verið í rannsóknum, þjónustu og ráðgjöf vegna reksturs og mögulegrar stækkunar Kröfluvirkjunar og sömuleiðis vegna orkuöflunar á öðrum háhitasvæðum norðanlands, s.s. Bjarnarflagi, Þeistareykjum og víðar. 

Starfsmenn útibúsins hafa einnig komið að rannsóknum vegna mannvirkjagerðar, s.s. rannsóknum vegna mögulegra ganga til Vestmannaeyja og vegna aðfærsluganga Kárahnjúkavirkjunar. Eins hefur stór hluti rannsókna á vegum Orkustofnunar vegna undirbúnings olíuleitar farið fram á útibúinu en þar starfar helsti sérfræðingur landsins í olíujarðfræði.

Grunnrannsóknir og þróun hefur einnig verið snar þáttur í starfi útibúsins en ÍSOR er þáttakandi í mörgum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum og hefur hitinn og þunginn af umsóknarferlinu og stýring sumra stærri verkefnanna verið hjá útibúinu. Má þar sérstaklega nefna HITI-verkefnið sem hefur að markmiði þróun rafeindabúnaðar og mælitækja sem þola aðstæður í heitum gufuholum (T ~300°C). Þá hafa starfsmenn útibúsins í vaxandi mæli komið að því að leiðbeina háskólanemendum í lokaverkefnum. 

Föstudaginn 23. október var haldinn afmælisfagnaður í nýlegri bíla- svarf- og kjarnageymslu útibúsins að Rangárvöllum við Hlíðarfjallsveg. Myndirnar eru teknar við það tækifæri.
Frá tíu ára afmælisfagnaði útibús ÍSOR á Akureyri.
Móttaka var í nýlegri bíla-, svarf- og kjarnageymslu ÍSOR á Akureyri. (Ljósm. Anett Blischke).

Frá afmælisfagnaðinum. (Ljósm. Anett Blischke)

Ingibjörg Kaldal deildarstjóri og Valgerður Sverrisdóttir fyrrv. iðnaðarráðherra.
Ingibjörg Kaldal deildarstjóri jarðfræðideildar og Valgerður Sverrisdóttir fyrrv. iðnaðarráðherra. (Ljósm. Anett Blischke).