[x]
1. desemeber 2005

Upphleyping í Bjarnarflagi

Fimmtudaginn 10. nóvember síðastliðinn var holu B-11 í Bjarnarflagi hleypt upp eftir rúmlega árs hvíld. Það væri ekki í frásögur færandi nema hvað að það var í fyrsta skipti hér á landi að holu er hleypt upp  með loftdælingu. Vel þekkt er að að dæla lofti á holur og þrýsta vatnsborði niður í þeim tilgangi að hita upp kaldan hluta eða þá að flýta fyrir hitnun. Þetta  hafði verið reynt nokkru sinnum á holu B-11 en án árangurs. Þá var leitað eftir ráðgjöf í smiðju Sverris Þórhallssonar verkfræðings á ÍSOR. Eftir að mælingamenn ÍSOR höfðu hita- og þrýstimælt holuna lágu fyrir nauðsynlegar grunnupplýsingar. Í framhaldi af því var 2-3" strengur settur niður á 500 m dýpi með krana, soðinn saman úr 3 m löngum rörum. Ekki verður farið nánar út í tæknilega útfærslu nema hvað einstreymisventill var í neðri enda rörsins. Eftir 20 mínútna loftdælingu var holan komin í blástur og í fleiri tíma losaði hún sig við mikil óhreinindi, en eftir það varð vatnið tært eins og Þingeyskt fjallavatn. Ekki vildi betur til en svo að einstreymisventill hélt ekki og því ljóst að engan veginn mundi verð auðvelt að draga rörið aftur upp. Hugvitsmenn gufuveitu Kröflustöðvar leystu það mál snilldarlega. Vökvadrifinn tjakkur var notaður til klemma rörin saman áður en þau voru skorin í sundur og tókst það með ágætum í frosti og nepju. Meðfylgjandi mynd (Ljósm Birkir Fanndal Haraldsson) sýnir þegar rörið er tekið upp með krana og voru það alls 27 færslur þar til allt var úr holu.   Nú er gufa frá holunni notuð til rafmagnsframleiðslu í Bjarnarflagsstöðinni.