[x]
3. desemeber 2007

Upphleyping borholna á Þeistareykjum

Upphleyping borholna ÞG-4 og ÞG-5 á Þeistareykjum.Nokkuð sérstæður atburður átti sér stað á Þeistareykjum fimmtudaginn 29. nóvember. Þá var hleypt upp þremur holum á sama borteig á einni klukkustund. Borteigurinn er á Þeistareykjagrundum við hlíðarfót Bæjarfjalls að norðanverðu, kenndur við ÞG-01, þar sem fyrsta djúpa rannsóknarholan á svæðinu var boruð. Eftir upphitunarmælingar um miðjan mánuðinn var ljóst að hægt væri að opna frá holunum fljótlega. Þegar til kastanna kom voru veðurskilyrði ekki hagstæð, en hvöss austanátt blés yfir svæðið með lítilsháttar ofankomu. Hiti var við frostmark.

Á hádegi umræddan dag hófst upphleypingin. Fyrst var skrúfað frá holunum, sem boraðar voru í sumar, en ÞG-01 hafði staðið lokuð meðan framkvæmdir stóðu yfir á borteignum. ÞG-04 var opnuð kl. 12 á hádegi og blés strax með miklum glæsibrag. Í kjölfarið fylgdu hinar holurnar með hálftíma millibili. Síðan blésu þær í kór með drunum og dinkum, sem kæfðu strax  tóna frá holu í nágrenninu (ÞG-03), sem er undir Ketilfjalli um 1 km austar.

Glöggir lesendur geta séð að allmikill munur er á blæstri holna ÞG-04 (fremst á mynd, í miðið) og ÞG-05 (til hægri). Blásturinn úr holu ÞG-04 leggur yfir holu ÞG-01 (til vinstri). Mikill aflmunur er á holunum. Í síðustu aflmælingum holu ÞG-01 mældist hún 6-7 MWe, hola ÞG-04 gæti verið á bilinu 10-15 MWe, en hola ÞG-05 gefur til kynna að hún hafi skorið „kaldar“ æðar (190-220°C).