[x]
12. ágúst 2010

Ungur áhugasamur vísindamaður fær jarðfræðikort að gjöf

Á síðustu Vísindavöku stóð ÍSOR fyrir jarðfræðigetraun fyrir börn og unglinga. Í verðlaun var nýtt jarðfræðikort af Suðvesturlandi og var vinningshafi Þorsteinn Stefánsson, 11 ára Reykvíkingur.

Þetta var í fyrsta sinn sem Þorsteinn heimsótti Vísindavökuna og tók hann virkan þátt í öllu sem var í boði, meðal annars getraun ÍSOR og var hann svo heppinn að vinna. Á Vísindavökunni kynnti ÍSOR vinnu við jarðfræðikortið af Suðvesturlandi og kortagerð almennt. Kortið kom út núna í sumar og fékk Þorsteinn eintak af því ásamt smá glaðningi.

Þorseinn er mjög áhugasamur um tækni og vísindi og þekkir álíka sýningar vel frá Noregi, en þar bjó hann um tíma. Hann hefur sérstaklega mikinn áhuga á eðlisfræði og eitt af hans uppáhaldsleikföngum í gengum tíðina er eldflaug sem knúin er með lofti. Að auki hefur hann stundað júdó og fótbolta og finnst gaman að grúska í tölvunni og að tölvuleikjum. Á sumrin stundar hann stangveiði af kappi.

Þorsteinn er mjög áhugasamur um jarðfræði landsins og fylgdist til dæmis vel með eldgosinu frá Eyjafjallajökli, fór á gosstöðvarnar og vann verkefni um eldgosið í skólanum.
Hann hefur í hyggju að ferðast meira um Ísland og þá er bara að vona að jarðfræðikortið komi honum að góðum notum.

Hér er Þorsteinn Stefánsson ásam tmóður sinni Svanhildi Evu Stefánsdóttur.