[x]
26. október 2010

Umfangsmikið jarðhitanámskeið í Kenía

Nú stendur yfir námskeið við Naivasha-vatn í Kenía um yfirborðsrannsóknir við jarðhitaleit.

Þátttakendur á námskeiðinu eru um 40 talsins, allt starfsmenn KenGen, raforkufyrirtækis Kenía, margir nýkomnir til starfa og með ólíkan bakgrunn og menntun.

Námskeiðið mun standa í 12 vikur og sér starfsfólk ÍSOR um stóran hluta þjálfunarinnar. Námskeiðið er í þremur hlutum, fyrirlestrar, feltvinna og verkefnavinna.
Fyrirlestrahlutinn stóð í sex vikur, hófst 13. september og lauk 23. október. Farið var yfir jarðfræði, efnafræði og jarðeðlisfræði. 
Feltvinnan hefst undir lok nóvember og stendur yfir í þrjár vikur. Þar verða nemendur þjálfaðir í jarðfræðikortlagningu, söfnun sýna til efnafræðirannsókna og notkun mælitækja til jarðeðlisfræðirannsókna. Skoða á hvort stækka megi núverandi virkjunarsvæði við Olkaría. 
Lokahluti námskeiðsins hefst snemma í janúar á næsta ári og tekur tvær vikur. Þá verður unnið úr niðurstöðum feltvinnunnar.

Ein af ástæðum þessa umfangsmikla námskeiðs er ákvörðun stjórnvalda í Kenía að stórauka raforkuframleiðslu í landinu með nýtingu jarðhita. Rannsóknir þykja benda til þess að virkja megi 7.000 MWe í sigdalnum í Kenía. Fyrir eru virkjanir á Olkariasvæðinu, samtals 202 MWe, sú fyrsta frá árinu 1981.  Stefnt er að því að auka framleiðsluna um 1.500 MW fyrir árið 2018 og um önnur 4.000 MW til viðbótar fyrir árið 2030. Gert er ráð fyrir að boraðar verði 1.000 borholur og reistar 30 stórar virkjanir í þessum tilgangi.

Námskeiðið er haldið á vegum KenGen, raforkufyrirtækis Kenía, en Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hér á landi skipulagði námskeiðið. Leiðbeinendur eru, sem áður sagði, starfsmenn frá ÍSOR og eru þeir taldir upp hér: jarðfræðingarnir Björn Harðarson og Anette K. Mortensen. Í efnafræði kenna Daði Þorbjörnsson og Þráinn Friðriksson. Í jarðeðlisfræði kenna Gylfi Páll Hersir, Karl Gunnarsson, Ingvar Þór Magnússon, Knútur Árnason og Gunnlaugur M. Einarson í landafræði.


 Þráinn Friðriksson leiðbeinandi á námskeiðinu ásamt þátttakendum. Ljósm. Daði Þorbjörnsson.

Frá jarðhitanámskeiðinu í Kenýa.