[x]
19. september 2005

Umfangsmestu orkurannsóknir á Norðurlandi

Landsvirkjun hefur eignast tæplega 32% hlut í Þeistareykjum ehf. með kaupum á nýju hlutafé í félaginu en skrifað var undir kaupin á hluthafafundi sem haldinn var á Breiðumýri í Reykjadal 9. september síðastliðinn. Um er að ræða hlutafjáraukningu upp á rúmar 110 milljónir króna, sem Landsvirkjun greiðir um 260 milljónir króna fyrir. Eftir kaupin eiga Norðurorka, Orkuveita Húsavíkur og Landsvirkjun jafna hluti í félaginu, tæpan þriðjung hvert en Þingeyjarsveit og Aðaldælahreppur eiga minna. Hreinn Hjartarson veitustjóri á Húsavík og formaður stjórnar Þeistareykja lét hafa eftir sér að með komu Landsvirkjunar að félaginu væri hægt að hefjast handa við borun tveggja rannsóknarholna á Þeistareykjum og að forhanna virkjun. Hann sagði að kostnaður við hvora holu væri á bilinu 200-250 milljónir króna og að stefnt væri bora eina holu á næsta ári og aðra árið 2007. Landsvirkjun á og rekur Kröfluvirkjun og Bjarnaflagsvirkjun og áformar að stækka Kröfluvirkjun og byggja nýja Bjarnarflagsvirkjun á næstu árum ef samningar nást um orkusölu. Hreinn sagði reiknað með að á næstu þremur árum verði varið á þriðja milljarð króna til rannsókna í Kröflu, Bjarnaflagi, Gjástykki og Þeistareykjum. „Gangi þetta eftir er hér um að ræða umfangsmestu orkurannsóknir sem ráðist hefur verið í á Norðurlandi.“