[x]
30. janúar 2004

Tveir nýir starfsmenn ráðnir til ÍSOR á Akureyri

 Í byrjun desember rann út umsóknarfrestur um tvö ný störf við útibú ÍSOR á Rangárvöllum á Akureyri. Annars vegar var auglýst eftir starfsmanni með menntun og reynslu á sviði jarðeðlis- eðlis eða verkfræði og hins vegar á sviði borholujarðfræði. Alls bárust 13 umsóknir um störfin frá hæfum umsækjendum. Athygli vakti að af þeim voru 6 frá útlendingum.
  Ragnar Ásmundsson, eðlisfræðingur, hefur nú verið ráðinn í annað starfið. Hann er 33 ára gamall frá Akureyri. Hann tók BS próf frá Háskóla Íslands í tæknilegri eðlisfræði og síðan doktorspróf í efnaeðlisfræði frá Háskólanum í Lundi. Ragnar hefur undanfarin 3 ár starfað sem  sérfræðingur á Raunvísinda­stofnun háskólans. Hann mun sinna ýmsum tæknilegum viðfangsefnum eins og t.d. borholumælingum og varmadælum. Hann hefur störf á skrifstofu  ÍSOR í Reykjavík  1. febrúar n.k. en flyst til Akureyrar 1. ágúst 2004. 
  Anett Blischke hefur verið ráðin í starf borholujarðfræðings. Anett er 32 ára, fædd í Chemnitz í A-Þýskalandi árið 1971. Hún tók BS próf í jarðfræði við Tækniháskólann í Berlín, en lauk síðan meistaraprófi frá Háskólanum í Oklahoma í olíujarðfræði og jarðeðlisfræði  með með áherslu á forðafræði. Hún hefur síðan starfað hjá Phillips Petroleum í Texas, Oklahoma, Englandi og Skotlandi við fjölbreytt verkefni á sviði olíujarðfræða og forðafræði. Hún hefur reynslu af störfum við borholujarðfræði á olíuborum. Anett hefur störf á ÍSOR í Reykjavík 1. maí n.k. en flyst um 2 mánuðum síðar til Akureyrar.