[x]
1. nóvember 2007

Tveir Íslendingar í stjórn Alþjóðajarðhitasambandsins

Alþjóðajarðhitasambandið (IGA - International Geothermal Association) hélt aðal- og stjórnarfundi í Reykjavík dagana 10. og 11. október síðastliðinn. Jarðhitafélag Íslands, sem er eitt af aðildarfélögum IGA, hafði umsjón með fundunum í samvinnu við skrifstofu IGA, en hún er starfrækt á Íslandi og rekin af Samorku. Fundirnir voru haldnir í húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur við Gvendarbrunna. Um 50 erlendir sérfræðingar á sviði jarðhita víðs vegar að úr heiminum komu til landsins að þessu tilefni.

Haldnir voru tveir fundir 30 manna stjórnar IGA, fyrst síðasti fundur fráfarandi stjórnar og síðan fyrsti fundur nýkjörinnar stjórnar. Ladislaus Rybach frá Sviss tók við embætti forseta IGA af John W. Lund frá Bandaríkjunum. Í nýju stjórninni sitja tveir Íslendingar, Gestur Gíslason frá Orkuveitu Reykjavíkur, sem var endurkjörinn í stjórnina og gegnir nú embætti ritara IGA, og Benedikt Steingrímsson, yfirverkefnisstjóri ÍSOR, sem kom nýr inn í stjórnina. Ólafur Flóvenz, forstjóri ÍSOR, gekk úr stjórninni að þessu sinni eftir að hafa setið þar í tvö kjörtímabil, hið síðara sem ritari IGA.

Í tengslum við IGA fundina hélt Jarðhitafélag Íslands haustþing sitt þriðjudaginn 9. október í höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur. Þingið fór fram á ensku undir yfirskriftinni: International Geothermal Development in the Near Future. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra opnaði fundinn og í kjölfarið flutti fjöldi erlendra og innlendra sérfræðinga erindi um þróun og horfur á sviði jarðhita í heiminum. Hægt er að nálgast glærur frá fyrirlestrunum á vefsíðu Samorku.

Að loknum fundunum var gestunum boðið í skoðunarferðir og sóttu þeir m.a. heim jarðhitavirkjanir og virkjanasvæði á Hellisheiði og Reykjanesi og fræddust um nýtingu jarðhita hér á landi.