[x]
19. apríl 2006

Þorsteinn Thorsteinsson látinn

Þorsteinn Thorsteinsson, verkfræðingur og fyrrum starfsmaður Jarðhitadeildar Orkustofnunar, forvera ÍSOR, er látinn tæplega 87 ára að aldri.  Þorsteinn fæddist árið 1919. Hann lauk BS prófi í námuverkfræði frá University of Minnesota árið 1944, starfaði síðan hjá Jarðborunum ríkisins árin 1945-1946. Þá nam hann jarðfræði við University of North Dakota og lauk þaðan meistaraprófi árið 1949.  Að einu ári undanskildu starfaði hann samfellt að jarðhitamálum frá árinu 1949 til ársins 1990, fyrst hjá Jarðborunum ríkisins en frá árinu 1964 hjá Jarðhitadeild Orkustofnunar.  Forðafræði jarðhita varð meginstarfssvið Þorsteins hjá Orkustofnun en hann var um aldarfjórðungsskeið helsti forðafræðisérfræðingur landsins. Hann er höfundur af á annað hundrað skýrslna og greinargerða um jarðhita og skyld efni á tímabilinu 1952 til 1990. Meðfylgjandi mynd frá árinu 1980 sýnir Þorstein (t.v.) ásamt Gunnari Ásgeirssyni hjá Jarðborunum við eina af borholum Hitaveitu Reykjavíkur við Nóatún í Reykjavík Íslenskar orkurannsóknir þakka Þorsteini fyrir áratuga störf hans í þágu íslenskra jarðhitamála og fyrir þátt hans í uppbyggingu hitaveitna og jarðhitaþekkingar á Íslandi.