[x]
13. maí 2015

Þjálfun nema við Jarðhitaskólann

Hluti af nemum Jarðhitaskólans í hófi við upphaf nýs skólaárs.Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna hefur nú sitt 37. starfsár. Stór hluti kennslu nemenda við skólann er í höndum starfsmanna ÍSOR og er það því mikið tilhlökkunarefni þegar nýr hópur nemenda birtist á hverju vori. Námið stendur í hálft ár og frá stofnun skólans, 1978, hafa 583 nemendur frá 58 löndum útskrifast frá skólanum.

Í ár verða 30 jarðvísindamenn og verkfræðingar frá 15 löndum í sex mánaða sérhæfðu námi við jarðhitaskólann. Þau koma frá Bólivíu (1), Djíbútí (2), Ekvador (1), Eþíópíu (2), Filippseyjum (4), Íran (2), Kenía (9), Kína (1), Kongó (1), Kómoreyjum (1), Malaví (1), Papúa Nýju Gíneu (1), Portúgal (2), Srí Lanka (1) og Tansaníu (1).

Við hjá ÍSOR bjóðum alla velkomna og hlökkum til að kynnast nemunum betur og taka þátt í að leiðbeina þeim frekar um jarðhitamál.