[x]
29. nóvember 2017

Þeistareykjavirkjun gangsett

Þann 17. nóvember var jarðhitavirkjun Landsvirkjunar á Þeistareykjum formlega vígð. ÍSOR óskar Landsvirkjun til hamingju með þetta stóra skref í jarðhitanýtingu á Íslandi. Í þessum áfanga hófst framleiðsla á 45 MW af rafmagni. Gert er ráð fyrir að næsta vor muni önnur 45 MW bætast við.

ÍSOR, hefur komið að undirbúningi Þeistareykjavirkjunar með margvíslegum hætti á undanförum áratugum. Má þar nefna umfangsmiklar yfirborðsrannsóknir á jarðhitasvæðinu þar sem unnið hefur verið að jarðfræðikortlagningu, jarðeðlisfræðilegum mælingum, jarðefnafræðilegri könnun á gufuaugum og lindum og ýmsu fleiru.

Jarðboranir hf hafa annast allar boranir á svæðinu en fyrsta háhitaholan, ÞG-1, var boruð 2002. Nú í lok ágústmánaðar lauk borun holu ÞG-18 en í maí 2016 hófst mikill borfasi á Þeistareykjum og voru boraðar alls níu holur. ÍSOR hefur veitt Landsvirkjun ráðgjöf og þjónustu við borun háhitaholnanna, svo sem varðandi staðsetningar, borholujarðfræði og mælingar meðan á borun hefur staðið. ÍSOR vann að þróun hugmyndalíkans af jarðhitakerfinu og við mat á stærð þess í samvinnu við Vatnaskil.

Hægt er að lesa nánar um jarðhitasvæðið hér á vefnum.

Sjá einnig heimasíðu Landsvirkjunar.

Háhitaholur á Þeistareykjum.

Háhitaholur á Þeistareykjum.

Þeistareykir vorið 2017. Ljósmynd Steinunn Hauksdóttir.

Þeistareykir vorið 2017. Ljósmynd Steinunn Hauksdóttir.

Hér að neðan er mælingafólk ÍSOR að störfum á Þeistareykjum. Ljósmynd Ragnheiður Steinunn Ásgeirsdóttir.

Mælingafólk ÍSOR að störfum á Þeistareykjum. Ljósmynd Ragnheiður Steinunn Ásgeirsdóttir.