[x]
13. febrúar 2010

Sumarstörf hjá ÍSOR 2010

ÍSOR hefur um áratugaskeið ráðið til sín nokkurn hóp háskólanema til ýmissa starfa. Undanfarin ár hafa 10-20 nemar verið í sumarstörfum hjá ÍSOR í tvo til þrjá mánuði hver. ÍSOR lítur á það sem skyldu sína að leggja sitt af mörkum við menntun ungs fólks, m.a. með því að gefa námsmönnum tækifæri til sumarstarfa. Því er stefnt að því að ráða nokkurn hóp til starfa sumarið 2010 þrátt fyrir samdrátt vegna fjármálakreppunnar. Það má hins vegar búast við því að nú verði færri ráðnir til sumarstarfa en undanfarin sumur.

Um ráðningu sumarstarfsmanna gilda eftirfarandi viðmið:

  1. Eingöngu verður ráðið fólk sem er í námi og hefur lokið að minnsta kosti einu ári af háskólanámi í þeim fögum sem starfsemi ÍSOR byggir á. Þarna er einkum átt við nema í jarðvísindum, eðlisfræði, efnafræði, vélaverkfræði, efnaverkfræði, véltæknifræði og orkutæknifræði.
  2. Þeir sem uppfylla skilyrði í lið 1, unnu sumarstörf hjá ÍSOR undangengið sumar og hafa staðið sig vel í starfi og námi hafa venjulega forgang til sambærilegra sumarstarfa þar til þeir hafa lokið meistaraprófi.
  3. Nemendur sem uppfylla lið 1, og eru í framhaldsnámi, og ráðnir eru til sumarstarfa skulu almennt vera í námi í sérgreinum á starfssviði ÍSOR.
  4. Þar sem ÍSOR kýs að ráða sömu nemendurna til starfa nokkur sumur í röð veitir það engan forgang til starfa hversu langt umsækjendur eru komnir í námi. ÍSOR reynir að hafa hæfilega blöndu námsmanna á ýmsum stigum náms í hópnum.
  5. Við ráðningu í störf framfylgir ÍSOR jafnréttisáætlun sinni sem birt er hér á heimasíðu.
  6. Vakin er athygli á því að sum störfin henta betur sterkbyggðu fólki og þjálfuðu útivistarfólki og kann að vera tekið tillit til slíkra atriða við val sumarstarfsmanna.

Umsóknum um sumarstörf hjá ÍSOR árið 2010 skal skilað í tölvupósti til Guðnýjar Þórsdóttur, starfsmannastjóra ÍSOR, eigi seinna en 28. febrúar 2010 (gudny@isor.is).

Umsóknum skal fylgja ferilskrá umsækjenda, afrit af einkunnum í afloknum námskeiðum í háskóla og ef við á meðmæli eða ábendingar um umsagnaraðila.
Stefnt er að því að afgreiða umsóknir fyrir miðjan apríl en það gæti þó dregist því oft er ekki ljóst fyrr en kemur vel fram á vorið hve mikil umsvif verða í mælingum og rannsóknum sumarsins.