[x]
6. janúar 2004

Straumhvörf í orkumálum Eyfirðinga

Hinn 30. desember sl. urðu straumhvörf í orkumálum Eyfirðinga er Norðurorka tók í notkun nýtt jarðhitasvæði á Arnarnesi við Hjalteyri. Merki um jarðhita við Hjalteyri fundust fyrir um 5 árum. Síðan þá hafa starfsmenn ÍSOR unnið að rannsóknum á svæðinu á vegum Arnarneshrepps og síðar Norðurorku.

Sumarið 2002 var boruð fyrsta djúpa borholan og hitti hún á öflugar vatnsæðar, sem eru um 87°C heitar.  Ítarlegar prófanir á afköstum holunnar og jarðhitasvæðisins stóðu yfir í rúmt ár. Helstu niðurstöður eru þær að holan getur gefið um 60-70 l/s af 87°C vatni við litla vatnsborðslækkun en svæðið sjálft  virðist geta staðið undir 200 l/s jafnaðarvinnslu til 30 ára. Það jafngildir orkuframleiðslu upp á um 430 GWst á ári ef vatnið kólnar ekki með tíma. Til samanburðar má geta þess að núverandi notkun hitaveitu Norðurorku á Akureyri er um 300 GWst.  Þessi orkuforði dugar því til að sjá tvöföldum núverandi íbúafjölda Eyjafjarðar fyrir orku til hitunar. Áratuga glíma við heitavatnsskort á Akureyri heyrir nú til liðinni tíð.

Lögð hefur verið aðveituæð frá Hjalteyri til Akureyrar, sem getur borið allt að 120 l/s en bora þarf aðra holu ef ná á öllu því magni úr jarðhitakerfinu.

Við hina formlegu opnun hitaveitunnar var undirritað samkomulag um aðild Arnarnesshrepps að Norðurorku. Þá flutti Bjarni Jónasson, formaður stjórnar Norðurorku ávarp. Franz Árnason forstjóri Norðurorku lýsti framkvæmdum. Ólafur G. Flóvenz forstjóri ÍSOR flutti ávarp og lýsti jarðhitaleitinni. Guðni Axelsson deildarstjóri á ÍSOR greindi frá mati á afköstum svæðisins.

Bjarni Jónasson, formaður stjórnar Norðurorku, og Hjördís Sigurgeirsdóttir, oddviti Arnarnesherpps, handsöluðu samning um aðild hreppsins að Norðurorku.

Guðni Axelsson, deildarstjóri á ÍSOR og Bjarni Gautason, útibússtjóri ÍSOR á Akureyri, við holuna góðu á Arnarnesi.