[x]
12. febrúar 2009

Stór styrkur fékkst til jarðhitarannsókna

Stjórn Rannsóknasjóðs hefur úthlutað styrkjum úr nýrri markáætlun Vísinda- og tækniráðs. Veittir voru þrír styrkir. Umsóknin, Alþjóðlegur rannsóknaklasi í jarðhita, hlaut hæsta styrkinn, allt að 70 milljónir króna á ári í 7 ár. Að umsókninni stóðu fjölmargir, en Háskóli Íslands og ÍSOR eru helstu aðilar umsóknarinnar. Jafnframt mun ÍSOR hýsa skrifstofu jarðhitaklasans. Þetta er einn stærsti styrkur sem veittur hefur verið hér á landi. Markmið markáætlunarinnar er að efla vísinda- og tæknirannsóknir á ákveðnum áherslusviðum, hvetja til árangursríkrar samvinnu milli ólíkra aðila innanlands og í alþjóðlegu samhengi, og ýta undir verðmætasköpun og fjárfestingu í rannsóknum og nýsköpun í atvinnulífinu. Sjá nánar á vef RANNÍS

Verkefnið í hnotskurn:

Alþjóðlegur rannsóknaklasi í jarðhita
Verkefnisstjóri: Sigurður M. Garðarsson, prófessor við Háskóla Íslands

Hagkerfi heimsins byggir á notkun jarðefnaeldsneytis sem er bæði takmörkuð auðlind og stuðlar að losun gróðurhúsalofttegunda, sem talið er að valdi breytingum á loftslagi jarðar. Til að vinna gegn loftslagsbreytingum þarf að finna aðra orkuvalkosti. Engin ein aðferð mun leysa notkun jarðefnaeldsneytis af hólmi heldur þarf að þróa safn valkosta sem beita má ýmist hnattrænt eða staðbundið eftir því sem við á. Í þessari umsókn er lögð fram áætlun um að auka rannsóknir og þróun á sjálfbærri jarðhitaorku og stuðla þannig að því að jarðhiti verði mikilvægt framlag til minnkunar notkunar jarðefnaeldsneytis. Því er lögð til stofnun alþjóðlegs rannsóknaklasa í jarðhita (GEOthermal Research Group (GEORG)). Myndun rannóknaklasans miðar að því að byggja brýr milli aðila á jarðhitasviðinu og mynda þannnig sterkt afl sem mun leiða til þess að vísindalegar og tæknilegar hindranir verða yfirstignar og leiða til fjölgunar sérfræðinga og skjótra framfara í jarðhitarannsóknum, verkfræði, og hönnun. Framtíðarsýn klasans er að verða leiðandi afl í alþjóðlegum jarðhitarannsóknum. Aðalmarkmið klasans eru að:

  • Draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu með því að þróa sjálfbæra nýtingu á jarðhitaauðlindinni
  • Gera Ísland að fyrirmynd sem nánast orkusjálfbært þjóðfélag með nær enga losun gróðurhúsalofttegunda
  • Skapa grundvöll fyrir nýsköpun og útrás íslenskra fyrirtækja í jarðhita og menntun, bæði fyrir þátttakendur klasans og með því að skapa frjótt umhverfis innanlands og með alþjóðlegum tengingum