[x]
28. september 2018

Stefnumót við vísindamenn

Vísindavaka 2018 verður haldin í Laugardalshöllinni, föstudaginn 28. september kl. 16:30-22:00. ÍSOR tekur þátt og verður m.a. hægt að fræðast um rannsóknir tengdar hafsbotninum. Við verðum með neðansjávarsiglingu á tölvuskjánum og sýnum undraheim hafsbotnsins, með öllum sínum sæfjöllum, gígum, strýtum og skipsflökum. Einnig verður fólki gefin kostur á að skoða ummyndunarsteindir í víðsjá. Þær endurspegla samsetningu bergs og hita og segja til um hita sem búast má við niðri í jörðu.

ÍSOR veitir ráðgjafarþjónustu og annast beinar gunnrannsóknir á flestum sviðum jarðhitanýtingar og annarra auðlinda. Á undanförnum áratugum hefur byggst upp sérfræðiþekkingu í öflun og túlkun gagna af hafsbotni. Meðal verkefna má nefna ráðgjöf til stjórnvalda varðandi skilgreiningar landgrunnsins utan 200 sjómílna auk fjölda samstarfsverkefna um kortlagningu hafsbotnsins. 

Rannís stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi, en hún er haldin samtímis í helstu borgum Evrópu síðasta föstudag í september undir heitinu Researchers' Night. Verkefnið er styrkt af Marie Sklodowska-Curie undiráætlun Horizon 2020, Rannís og mennta- og menningarmálaráðuneytinu.