[x]
30. ágúst 2005

Starfsmenn ÍSOR í Úganda

Að undanförnu hafa starfsmenn frá ÍSOR og Orkuveitu Reykjavíkur unnið að jarðhitarannsóknum í Úganda. Þeir vinna þar tímabundið sem starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar (ÞSSÍ), sem kostar þátttöku Íslendinga í rannsóknunum. Alþjóðabankinn og stjórnvöld í Úganda kosta þátttöku heimamanna. Um er að ræða framhald rannsókna sem fram fóru árin 2003 og 2004 á tveimur jarðhitasvæðum í vestur Úganda og kostaðar voru af Afríska Þróunarbankanum og ÞSSÍ.  Rannsóknirnar felast í jarðfræðikortlagningu og jarðeðlisfræðilegum mælingum. Í framhaldi af þeim verða boraðar fimm grunnar rannsóknarholur á hvoru svæði. Ef niðurstöður lofa góðu, þarf að bora djúpar rannsóknarholur til að fá úr því skorið hvort fyrir hendi sé jarðhiti sem nýta má til raforkuframleiðslu.