[x]
28. febrúar 2010

Starfsmaður ÍSOR og fjölskylda í Chile örugg

Samband náðist við Bjarna Richter, markaðsstjóra ÍSOR, sem staddur er í Santiago, höfuðborg Chile, um hádegisbil í dag. Jarðskjálfti er mældist 8,8 stig á Richter reið yfir um 300 km suður af borginni. Bjarni hefur dvalið í Santiago ásamt fjölskyldu sinni síðastliðnar 5 vikur og og sluppu þau alveg ómeidd.

Að sögn Bjarna skemmdist húsið sem hann býr í ekki mikið en honum var nokkuð brugðið, enda var skjálftinn snarpur. Rafmagnslaust er í borginni.

Bjarni er að störfum hjá fyrirtækinu GeoThermHydro sem er í eigu ÍSOR og verkfræðistofanna Mannvits og Verkís.

Klukkan 1.52 sunnudaginn 28. febrúar bárust þessar fréttir frá Bjarna:

"Síðastliðnir 30 klukkustundir hafa verið afskaplega einkennilegir. Að vera vakinn upp um miðja nótt þar sem allt leikur á reiðiskjálfi, miklar drunur, brak og brestir í öllu húsinu, sírenuvél og þjófavarnir á fullu. Ekki stætt og hentumst við fram úr rúminu og lögðumst á gólfið við hliðina á rúminu. Skápar falla fram, hreinsast af öllum borðum. Heyrðist ekkert í drengjunum í næsta herbergi þannig að maður reynir að hlaupa inn til þeirra til að kanna hvort að þeir hafi komið sér í skjól við hliðina á rúminu. Liggjum síðan næstu hálfu mínútuna eða svo og fylgist með loftinu, sannfærður um að það muni detta hvað úr hverju. Rafmagnið fór af en blikkandi neyðarljós í næstu byggingu lýsti upp hluta af íbúðinni hjá okkur. Þetta var eins og í ekta stórslysamynd. Loksins gekk þetta yfir. Hentumst í fötin og reyndum að komast út. Útidyrahurðin hafði skekst þannig að við komumst ekki út. Heyrðum í hinum íbúunum á leiðinni niður og hlustuðum á köll og hróp á spænsku. Eftir nokkra stund komu húsverðirnir aftur þar sem ljóst var að ekki væru allir búnir að skila sér. Aðstoðuðu þeir okkur við að rífa hurðina af hjörunum. Ég náði að losa hjarirnar innan frá og spörkuðu húsverðirnir síðan hurðinni inn. Ég fór svo að hjálpa þeim við að ná konu út úr íbúð á sömu hæð sem svipað var ástatt með.

Það sem kom okkur mest á óvart var hvað við vorum tiltölulega róleg og hugsuðum skýrt meðan á öllu stóð. Það var ekki fyrr en um 2 tímum síðar, eftir að við vorum búin að laga það helsta, tjasla hurðinni í (sem er reyndar skökk þannig að læsingar virka ekki og opnast hún nú aðeins til hálfs) sem stressið og sjokkið fór að segja til sín. Reyndum að halla okkur en náðum lítið að hvíla okkur. Fórum síðan á fætur um átta leitið enda lítill friður fyrir eftirskjálftum og frekar óþægiegt að liggja við slíkar aðstæður. Reyndum að ná sambandi heim, en ekkert gsm samband. Tókst þó að ná merki í smá stund og láta vita með tölvupósti úr símanum að við værum á lífi. Við vorum ekki með útvarp og allt rafmagnslaust þannig að við höfðum enga hugmynd um hversu alvarlegt ástandið væri. Við gerðum okkur ekki grein fyrir hversu stór skjálftinn væri en í hverfinu hjá okkur var ekki að sjá í fyrstu mikið um tjón. Síðar um daginn fengum við síðan að heyra að töluvert varð um tjón í Santiago og Valparaíso og Conception og nærliggjandi bæir í rúst.

Höfðum samband við Hörpu Elínu (starfsmann GeoThermHydro) og kom í ljós að allt var í lagi hjá henni. Carlos (starfsmaður GeoThermHydro) var fyrir norðan þannig að hann varð ekki var við neitt, en kærasta hans var einnig óhult.

Fórum út að ganga og reyna að róa okkur niður, enda óþægilegt að vera inni á sjöundu hæð meðan stöðugir eftirskjálftar ganga yfir. Vont að sitja þarna, finna skjálftann byrja og velta því fyrir sér hve stór hann verður þessi. Vorum síðan að mestu úti í gær. Gengum um og sáum að svolítið af gleri hafði fallið úr háhýsunum í kring og sem betur fór er líklegt að enginn hafi verið úti um nóttina og orðið fyrir fallandi glerbrotum. Púsning hrundi af veggjunum og eitthvað af veggjum hafði skemmst. Fréttum síðar að miðborg Santíagó hafði stórskemmst enda ekki byggð eins vel og nýrri úthverfin. Dagurinn fór einnig í það að láta vita af okkur og kanna það hvort hægt væri að komast burt. Flugvöllurinn er hér lokaður í 72 tíma enda urðu skemmdir þar. Við sáum að smásaman kom rafmagnið á í borginni, en undir kvöld var rafmagnið ekki enn komið á hjá okkur. Einnig var vatnið farið. Við fórum á nokkur hótel og spurðum hvort við gætum gist um nóttina, en allt var fullt, m.a. vegna þess að efstu hæðir hótelana höfðu skemmst og voru óíbúðarhæfar. þurfti að flytja þá sem þar voru neðar. Ekki tókst að fá þar húsaskjól þannig að við leituðum á náðir Hörpu, sem býr í öðru hverfi og var komin með rafmagn. Sváfum þar í nótt, en ennþá ríða eftirskjálftar yfir, bara til að minna okkur á aftur og aftur á stóra skjálftann og hve lítill maður er í raun þegar náttúran verður duttlunagfull. Þó er lengra á milli þeirra núna.

Fólkið hér í Santíagó er í sjokki. Það var skrítin tilfinning á götunum hér. Allt hér í lausagangi og fólk gangandi um að skoða skemmdir. Ókunnugt fólk kom upp að okkur að spjalla og maður sá að mörgum var greinilega brugðið. Allar búðir voru lokaðar og flestir matsölustaðir einnig. Ekki var hægt að nota vísakort og við með lítið af lausafé. Lítið var um mat í ískápnum okkar, en okkur tókst þó að skrapa í eina vafasama skyndimáltíð.

Jæja, nú ætlum við að fara að kanna hvort rafmagn og vatn sé komið á hjá okkur og fara síðan í göngutúra, þar sem manni líður skást utandyra."