[x]
6. júní 2008

Sprungur í Reykjafjalli austan Hveragerðis

Í jarðskjálftunum undanfarna daga mynduðust sprungur nálægt fjallsbrúnum Reykjafjalls austan Hveragerðis. Að ósk Hveragerðisbæjar fóru þeir Kristján Sæmundsson og Jónas Guðnason jarðfræðingar hjá ÍSOR í könnunarferð 3. júní sl. Tilgangurinn var að skoða sprungurnar og meta hvort af þeim stafi einhver hætta.

Eins og meðfylgjandi kort sýnir gróflega eru sprungurnar (hvítar línur) nálægt brúnum Reykjafjalls innan við Stórkonugil. Má rekja sprungurnar um 3 km leið til norðurs. Um 1 km sunnan Selfjalls hverfa ummerki og óvíst er hvort sprungur hafa tekið sig upp enn norðar. Sprungufylki liggja á um 100 m breiðu belti inn á fjallið, en ekki hafa fundist sprungur austar á fjallinu ennþá. Stærstu sprungurnar sem fundist hafa eru í hnjúknum norðan við Stigagil eins og sést vel á ljósmyndinni hér fyrir neðan sem Oddur Sigurðsson jarðfræðingur hjá Vatnamælingum tók úr lofti 3. júní. Sprungurnar eru skástígar og stefna NA-SV. Margar þeirra eru gamlar sprungur sem hafa tekið sig upp við stóra skjálftann 29. maí. Víða með brúnum eru gamlar siggeilar og bætt hefur í sigið við skjálftann svo sjá má fersk brotsár. Kristján telur að ekki sé bráð hætta á fjallshruni. Sprunguhreyfingarnar nú eru framhald á þróun sem á sér langa sögu og eru sambland af jarðskjálftasprungum og framsigssprungum í fjallsbrúninni sem erfitt sé að greina í sundur nema með nákvæmari skoðun.

Mælt með því að vel verði fylgst með hreyfingum á sprungusvæðinu. Þó má búast við einhverju hruni og skriðum á þessum slóðum enda sést t.d. losaraleg 50 m2 spilda í brúninni innan við Stigagil. Það er því full ástæða til að fara með gát um hlíðar Reykjafjalls og vera ekki á ferð þar að óþörfu.

Sprungur sem mynduðust í jarðskjálftanum í Reykjafalli

Sprungurnar í Reykjafalli sjást vel úr lofti.