[x]
24. ágúst 2009

Sjóöflun fyrir fiskeldi

Starfsmenn ÍSOR koma víða við sögu þegar velja þarf staði fyrir borholur, hvort sem ætlunin er að vinna úr þeim kalt eða heitt vatn eða volgan jarðsjó.

Í sumar var boruð ný vinnsluhola við fiskeldisstöð Stofnfisks að Kalmanstjörn, rétt sunnan við Hafnir. Henni var ætlað að skila feiknamiklum sjó, eða allt að 300 l/s, og hitinn átti að vera í það minnsta 11°C. Nú hefur verið dælt 70 l/s úr holunni um nokkurra vikna skeið og er hitinn 13,8°C. Fróðlegt verður að fylgjast með hvort sá hiti breytist þegar farið verður að dæla með fullum afköstum.

Nýja holan heitir KAL-20 og var boruð með jarðbornum Nasa frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða. Holan er 155 m djúp og fóðruð með 20" víðri fóðringu niður í 117 m. Fyrri boranir höfðu sýnt að borun þarna yrði erfið vegna hrunhættu. Hingað til hefur ekki gengið að bora sjóholur án þess að nota leðju. Nú var borað með lofthamri og „öfugri skolun“ (reverse circulation) en þá er borsvarfið tekið upp í gegnum borstangirnar. Þannig er gerlegt að koma svarfinu upp til yfirborðs þó svo að mikið hrynji úr holuvegg og stórir „skápar“ myndist. Volgi jarðsjórinn tengist sprungu sem skorin var á 123 m dýpi. Stutt afkastamæling í borlok gefur til kynna að niðurdráttur verði um 5 m við 300 l/s úrdælingu en ekki er vitað hve mikið sprungan getur gefið og þess vegna er ekki hægt að spá fyrir um hvert endanlegt hitastig verður.

Við borlok á holunni KAL-20.
Við borlok kom upp afar mikill jarðsjór, svo það mynduðust tjarnir norðan við fiskeldisstöðina. Ljósm. Bjarki Þór Arnbjörnsson, borstjóri Nasa. 

Dæluprófun á holunni KAL-20 við Kalmanstjörn.

Myndin er tekin í lok stuttrar dæluprófunar á borholunni KAL-20. Jarðborinn Nasi er í loftdælingu. Dælt er allt að 85 l/s. Niðurdráttur í holunni var innan við 10 cm og var hitinn 13,8°C og seltan 34,8‰. Ljósm. Sigurður G. Kristinsson.