[x]
2. maí 2016

Sérfræðingur ÍSOR heiðraður

Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra ásamt jarðvísindakonunum sem voru heiðraðar á vegum WING, þær Hrefna Kristmannsdóttir og Ragna Karlsdóttir.Tvær jarðvísindakonur voru heiðrar fyrir störf sín í jarðhita af alþjóðlegum samtökum kvenna í jarðhita (WING). Þetta voru þær Ragna Karlsdóttir verkfræðingur hjá ÍSOR og Hrefna Kristmannsdóttir CandReal í jarðfræði frá Háskólanum í Osló, sem starfaði um árabil hjá forvera ÍSOR, Orkustofnun. Athöfnin var haldin í tengslum við alþjóðlega jarðvarmaráðstefnu, IGC2016, sem fór fram í Reykjavík 26.–28. apríl síðastliðinn.

Ragna Karlsdóttir er fædd í Reykjavík 9. júlí 1946. Hún útskrifaðist sem verkfræðingur frá Háskóla Íslands 1971 og lauk Cand. Polyt gráðu frá DTH í Kaupmannahöfn 1976.
Ragna hefur alla sína starfsævi unnið að jarðhitamálum. Hún hóf störf sem aðstoðarmanneskja hjá jarðhitadeild   Orkustofnunar, sem síðar varð ÍSOR, árið 1970 en fékk stöðu jarðeðlisfræðings árið 1974 og hefur gegnt henni síðan. Ragna var aðstoðardeildarstjóri eðlisfræðideildar ÍSOR í fjölmörg ár. Hún var sömuleiðis leiðbeinandi margra nema við jarðhitaskóla Háskóla sameinuðu þjóðanna.

Um það leyti sem Ragna hóf starfsferil sinn sem jarðeðlisfræðingur voru miklar framfarir í jarðhitamálum Íslendinga. Stjórnvöld höfðu tekið þá ákvörðun að hitaveituvæða allt landið og bæta þannig úr orkuþörfinni sem olíukreppan hafði í för með sér. Ragna kom því nýútskrifuð beint inn í krefjandi og spennandi verkefni sem þurfti að leysa með nákvæmni og tilheyrir með sanni hópi brautryðjenda sem leiddu grunnrannsóknir í jarðhitamálum. Ragna hefur í gegnum tíðina verið viðloðandi allar jarðeðlisfræðilegar rannsóknir á jarðhitasvæðum landsins, einkum viðnámsmælingar, allt frá því að skipuleggja rannsóknarleiðangra, sjá um úrvinnslu og gagnavinnslu yfir í að túlka gögnin og koma þeim saman í hugmyndalíkan.

Ragna hefur setið í fjölmörgum stjórnum, m.a. í stjórn Jarðhitafélgasins 2007-2011 og Jöklarannsóknafélags Íslands 1977-1980. Hún hefur tekið þátt í Zontahreyfingunni (Zonta International) í meira en 25 ár, m.a. sem klúbbformaður,  umdæmisstjóri Norðurlanda, stjórnarmaður í alþjóðastjórn sem og forseti í mörgum nefndum. Ragna var einn af stofnendum Alnæmisbarna í Úganda sem er stuðningsfélag fyrir ungar, heimilislausar stúlkur. Hún hefur sungið með Kvennakór Reykjavíkur í mörg ár og var formaður hans í 7 ár.

Við hjá ÍSOR erum öll mjög stolt og ánægð og óskum Rögnu og Hrefnu innilega til hamingju.