[x]
8. febrúar 2006

Sérfræðingar ÍSOR enn að störfum í Úganda

Undanfarin ár hafa jarðhitasérfræðingar frá ÍSOR og Orkuveitu Reykjavíkur unnið að jarðhitarannsóknum í Úganda í samvinnu við heimamenn. Vinna íslendinganna er greidd af Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Árin 2004 og 2005 var unnið að yfirborðsrannsóknum á tveimur svæðum í vestur Úganda. Nú eru rannsóknarboranir að hefjast og verða boraðar 5-7 grunnar holur á hvoru svæði. Seinni partinn í janúar fóru tveir sérfræðingar ÍSOR til Úganda til að koma borunum af stað og þjálfa heimamenn í eftirliti og mælingum í borholunum. Annar sérfræðingurinn kom heim eftir tveggja vikna dvöl, en hinn, Þórólfur Hafstað, verður tveimur vikum lengur til að fylgjast með fyrstu vikum borananna og kenna heimamönnum verklag við rannsóknarboranirnar.