[x]
28. maí 2008

Sérfræðingar frá ÍSOR við kennslu í Kína

Þeir Guðni Axelsson eðlisfræðingur og Sverrir Þórhallsson verkfræðingur voru meðal fyrirlesara á fyrsta námskeiðinu í jarðhitafræðum sem Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna stendur fyrir í Kína, „Workshop for Decision Makers on Direct Heating Use of Geothermal Resources in Asia“. Námskeiðið var fyrir yfirmenn orkumála í Asíu og var aðaltilgangurinn að miðla þekkingu um sjálfbæra nýtingu jarðhitans við húshitun og aðra beina notkun. Þátttakendur voru 118 frá sjö löndum, þ.e. frá Kína, Indlandi, Íran, Jórdaníu, Mongólíu og Norður og Suður Kóreu.Kína er auðugt af jarðhita og hafa Kínverjar haft í hyggju að stórauka sjálfbæra nýtingu hans. Eins og fram kemur á vef jarðhitaskólans þá búa um 11 milljón manns á Tianjin svæðinu, þar sem námskeiðið var haldið. Þar af njóta um milljón húshitunar með jarðhita og um 4 milljónir manna fá heitt neysluvatn í híbýli sín. Námskeiðið var haldið í samvinnu Jarðhitaskólans og stofnana í Tianjin héraðinu í Kína dagana 11.-18. maí s.l. Það er liður í framlagi Íslands til þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og er það sjötta slíka námskeiðið. Fyrri námskeið hafa verið haldin í Kenýa og El Salvador.Nánari upplýsingar og námskeiðsgögn má nálgast á vef Jarðhitaskólans.Þátttakendur á fyrsta degi námskeiðsins í Tianjin í Kína.