[x]
18. febrúar 2021

Segulmælingar með dróna

Grímuklæddir og alvarlegir að taka á móti drónanum. ÍSOR ásamt Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík hlutu nýverið styrk frá Rannís til þess að kaupa segulmæli og dróna. Að sögn Gylfa Páls Hersis, jarðeðlisfræðings hjá ÍSOR, opnast hér ný tækifæri við jarðhitaleit og jarðfræðirannsóknir almennt. Mælingar verða mun ódýrari, fljótvirkari og auðveldari í notkun þar sem aðgengi er erfitt. Segulmælingar á jörðu niðri, þar sem einfaldlega er gengið með segulmæli, hafa reynst notadrjúgar í gegnum tíðina. Þetta á einkum við kortlagningu bergganga sem oft eru grafnir undir yfirborðslög og gróðri og sjást í besta falli í giljum og klettabeltum. Kortlagning bergganga er eitt af lykilatriðum við staðsetningu borholna. Hingað til hafa flugsegulmælingar verið notaðar til þess að afla almennra upplýsinga um brotakerfi m.a. háhitasvæða og ummyndun.

Dróninn notast við GPS-tækni og getur flogið í allt að 120 m hæð yfir yfirborði eftir fyrirfram ákvörðuðum fluglínum. Hann getur mælt í allt að 0,5 klst. í einu og kemst þannig yfir stærra svæði á styttri tíma en mögulegt væri á tveimur jafnfljótum. Einnig má koma mælinum fyrir í flugvél og afla gagna fyrir enn stærri svæði. Gögnin eru vistuð í minni mælisins en söfnunartíðni mælinga er 1 kHz, svo auðveldlega má sía burt áhrif rafmagnslína og annarra truflana úr umhverfinu.