[x]
1. desemeber 2009

Samstarfssamningur á milli ÍSOR og orkufyrirtækisins LaGeo í El Salvador

Nýverið var skrifað undir samning á milli ÍSOR og orkufyrirtækisins LaGeo í El Salvador, en þau hafa átt farsælt samstarf á undanförnum árum.
Samstarfið felur meðal annars í sér að ÍSOR yfirfari rannsóknir frá San Vicente jarðhitasvæðinu og skoði sérstaklega niðurstöður viðnámsmælinga og rannsóknarborana og leggi mat á núverandi hugmyndalíkan af svæðinu. Þarna hafa verið boraðar þrjár djúpar rannsóknarholur. Árangur hefur verið undir væntingum og ræður niðurstaða næstu borholu töluverðu um hvort þarna verði haldið áfram rannsóknum. Tveir starfsmenn ÍSOR fara til El Salvador í byrjun desember og starfsmaður frá LaGeo kemur til ÍSOR í ársbyrjun 2010 í tveggja mánaða þjálfun, einkum í jarðeðlisfræði og gerð hugmyndalíkana af jarðhitasvæðum.

Í El Salvador er jarðhiti nýttur á tveimur svæðum til raforkuframleiðslu og er uppsett afl samtals 204,4 MWe. Annars vegar í Ahuachapán í vesturhluta landsins, þar sem uppsett afl er 95 MWe og er fyrirhuguð 5 MWe stækkun, og hins vegar í Berlín í austurhlutanum en þar er uppsett afl 109,4 MWe og áætluð stækkun um 25 MWe. Árið 2008 var jarðhiti nýttur til framleiðslu 1.421 GWh, eða 25% af raforkunotkuninni í landinu, sem er svipað hlutfall og hér.

LaGeo vinnur auk þess að rannsóknum og tilraunaborunum á tveimur svæðum til viðbótar, San Vicente sem þegar er getið og Chinameca þar sem boraðar hafa verið tvær holur.
Vonir standa til þess að samningurinn auki samvinnu LaGeo og ÍSOR við jarðhitarannsóknir í Mið-Ameríku.

Uppsett afl til raforkuframleiðslu í El Salvador.

Uppsett afl til raforkuframleiðslu í El Salvador.