[x]
19. desemeber 2006

Samstarfssamningur ÍSOR og Háskóla Íslands

Hinn 19. desember undirrituðu Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands og Ólafur G Flóvenz forstjóri ÍSOR víðtækan samstarfssamning. Markmiðið með gerð samningsins er einkum að:

  • efla fræðilega og verklega menntun háskólanema á þeim fræðasviðum sem samningurinn tekur til en starfsmenn ÍSOR hafa margir mikla reynslu af kennslu og þjálfun háskólanema í grunnnámi sem og á meistarastigi,
  • auka rannsóknir á sviði náttúrufars, orkumála og annarra auðlindamála,
  • tryggja að gæði rannsóknastarfs hjá báðum stofnunum séu sambærileg við það sem best gerist,
  • nýta möguleika til samreksturs tækja í þágu sameiginlegra verkefna og verkefna hvorrar stofnunar fyrir sig.

Hann er gerður til að efla samstarf í ljósi þess að kennsla og rannsóknir Háskólans tengjast á margan hátt rannsóknum og verkefnum Íslenskra orkurannsókna. Jafnframt hafa ÍSOR og HÍ haft með sér óformlegt samstarf um rannsóknir og um kaup og rekstur á tækjum til jarðvísindarannsókna. Meginatriði samningsins snýr að aðkomu sérfræðinga ÍSOR að kennslu og þjálfun nema í meistara- og doktorsnámi við HÍ þótt einnig sé opnað á tímabundar tilfærslu starfsmanna milli stofnanna. Þannig mun ÍSOR leitast við að fella þjálfun og kennslu framhaldsnema inn í þau verkefni sín þar sem þess er kostur og nýta þannig verkefni sem ÍSOR fær greitt fyrir í þessum tilgangi. Jafnframt mun Háskólinn bjóða völdum sérfræðingum ÍSOR að gegna akademískum gestastörfum við deildirnar. Gestastarf felur í sér að hlutaðeigandi starfsmaður ÍSOR fær viðurkenningu sem leiðbeinandi í rannsóknanámi innan viðkomandi deildar, enda uppfylli hann þær kröfur sem Háskólinn gerir að þessu leyti. Gestakennararnir skul birta greinar sameiginlega í nafni ÍSOR og HÍ. Fyrir Háskólann þýðir þetta að sérfræðigrunnur hans breikkar og gerir hann hæfari og betur í stakk búinn til að veita áhugavert rannsóknanám á þeim fræðasviðum sem ÍSOR starfar á. Ólafur G Flóvenz, forstjóri ÍSOR og Kristín Ingólfsdóttir rektor Háskóla Íslands undirrita samninginn.