Um miðjan september undirrituðu ÍSOR og japanska fyrirtækið Geoscience Enterprise Inc. (GSE) rammasamning um samstarf í jarðhitaverkefnum í Japan. Samningurinn er til þriggja ára og kveður á um samstarf um verkefni er tengjast rannsóknum á sviði jarðhita í Japan, bæði vegna raforkuframleiðslu og beinnar nýtingar jarðhita.
Geoscience Enterprise Inc. (GSE) er japanskt rannsókna- og þróunarfyrirtæki með áherslu á jarðvísindi. Það er í eigu GPSS Holdings Inc., sem er japanskur orkuframleiðandi sem framleiðir orku með endurnýjanlegum orkugjöfum, og Geothermal Development & Investment Inc. (GDI) sem er fjármögnunaraðili fyrir lítil og meðalstór jarðhitaverkefni í Japan.
ÍSOR hefur starfað töluvert í öðrum Asíulöndum, bæði sem ráðgjafi og rannsókna- og eftirlitsaðili, og annast þjálfun nemenda á vegum Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.
Samningurinn var undirritaður af þeim Takahiro Kurata, forstjóra GSE, og Ólafi G. Flóvenz, forstjóra ÍSOR.