[x]
4. apríl 2014

Samstarf Íslands og Azoreyja um jarðhitauppbyggingu

Íslenska sendinefndin á Azoreyjum. Ljósmynd Orkustofnun.ÍSOR var hluti sendinefndar á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins sem fundaði við ráðamenn á Terceira, Azoreyjum í vikunni. Tilgangur ferðarinnar var að efla tvíhliðasamstarf á milli ríkjanna og að kynna sérstaka samstarfsáætlun á vegum Þróunarsjóðs EFTA á sviði jarðvarma. Sendinefndin var skipuð þrettán fulltrúum frá Íslandi: frá ráðuneytinu, Þróunarsjóðnum, Orkustofnun, Jarðhitaskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Mannviti, Eflu, Verkís, Green Energy Group og ÍSOR.
Orkuáætlunina má lesa í heild sinni hér.

Orkustofnun hefur umsjón með verkefnum á Azoreyjum sem fjármögnuð eru af sjóðnum og eitt af sérverkefnum áætlunarinnar sem kynnt var er að reisa 3 MW jarðvarmavirkjun til raforkuvinnslu á eyjunni Terceira. Af því tilefni var jarðhitasvæðið Pico Alto heimsótt en fyrirhuguð virkjun mun nýta borholur á því svæði. Þær holur voru boraðar á árunum 2009-2010 af Jarðborunum. ÍSOR hefur átt í áralöngu samstarfi  við samstarfsaðila sem stýra jarðhitavirkjunaráformum á Azoreyjum (EDA og Geoterceira) og hefur veitt rágjöf varðandi jarðvísindarannsóknir, boranir og prófanir á þessum borholum. Þá mun Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna halda nokkur sérfhæfð námskeið á Azoreyjum á sviði jarðhitarannsókna síðar á þessu ári. Sérfræðingar ÍSOR munu að mestu sjá um þá kennslu í samstarfi við Jarðhitaskólann.