[x]
17. september 2015

Samningur um þjónustu ÍSOR vegna borana vinnsluholna í Montelago á Filippseyjum

Frá borsvæði í Montelago á Filippseyjum.ÍSOR hefur gert samning við fyrirtækið Emerging Power Inc. um áframhaldandi vinnu vegna borframkvæmda á jarðhitasvæðinu Montelago á Filippseyjum. Í fyrstu umferð er áformað að reisa virkjun til að framleiða allt að 20 MW rafmagn. Að auki er áformað að nýta jarðhitavökvann til beinnar nýtingar fyrir heimamenn.

ÍSOR mun sjá um alla almenna jarðhitaráðgjöf og mælingar á meðan á borun stendur. Þá hefur ÍSOR hannað vinnsluholurnar, gert boráætlun og mun annast allar borholu- og rennslimælingar. Borholujarðfræðingar og mælingamenn frá ÍSOR verða á staðnum og er áætlað að um 10-15 starfsmenn taki þátt í verkefninu. Í fyrstu umferð verða boraðar 4 holur, en ef þær heppnast verða boraðar allt að 9 vinnsluholur auk niðurrennslisholna.

Jarðboranir hf. sjá um borunina og er verið að flytja jarðborinn Geysi á staðinn. Reiknað er með að boranir hefjist seinni hluta október.

Vinnuhópur að undirbúa viðnámsmælingar á Filippseyjum.ÍSOR hefur verið með sérfræðinga að störfum meira og minna í Montelago frá því í febrúar 2014 við að kortleggja og rannsaka svæðið. Í ár lauk borun tveggja rannsóknarholna en boraðar voru kjarnaholur niður á 1200 og 1250 metra dýpi. Önnur holan gaf jarðhitavökva og reyndist ríflega 200°C í botni, en hún er afar gasrík (Koltvíoxið).

Hægt er að lesa nánar um verkefnið í eldri fréttum hér á vefnum:

Rannsóknarboranir á Filippseyjum
Jarðhitarannsóknir á Filippseyjum