[x]
4. janúar 2011

Samningur um jarðhitarannsóknir í Chile

Vonir um að hægt verði að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í landinu á næstu árum.

Nýlega skrifaði ÍSOR undir tveggja ára samning um jarðhitarannsóknir við eitt stærsta námufyrirtæki Chile, Collahuasi. Mikil orkuþörf er í námavinnslu og samkvæmt samningnum mun ÍSOR annast  forrannsóknir á tveimur háhitasvæðum, Irruputuncu og Olca, sem eru í norðurhluta Chile við landamæri Bólivíu.

ÍSOR hefur rekið þjónustu- og ráðgjafarfyrirtækið GeoThermHydro í Chile í rúmt ár, ásamt verkfræðistofunni Verkís, og er þessi samningur afrakstur samstarfsins og markaðssetningar sl. ár. ÍSOR og Verkís hafa unnið þónokkur minni verkefni í Chile á undanförnum misserum en þetta verkefni er það stærsta. Allt stefnir í að jarðhitaumsvif verði töluverð í Chile á næstu árum og hafa verkefni GeoThermHydro verið að aukast og stækka jafnt og þétt.

ÍSOR og Verkís munu sjá um alla verkefnisstjórnun og ráðgjafaþjónustu fyrir Collahuasi. Einnig sjá þau að miklu leyti um skipulagningu rannsókna og úrvinnslu gagna, hönnun borholna, boreftirlit, borholumælingar og prófanir. Jafnframt er það í verkahring ÍSOR að gera hugmyndalíkön og forathugunarskýrslu. Rannsóknarvinnan hófst formlega í september og hefur miðað nokkuð vel. Reiknað er með að byrjað verði að bora fyrstu holuna í Olca á fyrsta fjórðungi þessa árs en það verður ögrandi verkefni þar sem hún verður boruð í um 5000 metra hæð yfir sjávarmáli.

Chile er 756.950 ferkílómetrar að stærð og er íbúafjöldi um 17 milljónir. Lengd Chile er um 4300 km en landið er aðeins um 175 km á breidd að meðaltali.

Nýting jarðhita í Chile er enn á þróunarstigi. Jarðhitinn hefur einna helst verið nýttur í baðaðstöðu en áhugi er á að nýta hann á fjölbreyttari hátt. Töluvert er um jarðhitasvæði í Chile og finnst jarðhiti að miklu leyti í norðurhluta landsins í um 3000-5000 m hæð í Andesfjöllum. El Tatio svæðið er þeirra þekktast. Þar voru boraðar tilraunaholur fyrir nokkrum áratugum en ekkert varð úr nýtingu jarðhitans.

Vegna takmarkaðra olíuauðlinda hafa Chilebúar nýtt kolaauðlindir sem og fljótandi jarðgas frá Argentínu til orkuvinnslu. Ríkisstjórn Chile ákvað að styðja við átak í orkuöflun og nýta til þess m.a. jarðhita og vatnsafl, ásamt öðrum endurnýjanlegum orkugjöfum. Einnig má taka fram að Chile undirritaði Kyoto-samkomulagið og þarf því að auka hlut endurnýjanlegrar orku í orkuframleiðslu sinni á næstu árum.