[x]
21. september 2006

Samkomulag um landgrunnsréttindi í Síldarsmugunni

Nú hefur náðst sá mikilvægi árangur náðst að gert hefur verið samkomulag við Færeyjar og Noreg sem felur í sér viðurkenningu á landgrunnsréttindum Íslands yfir 29.000 km2 svæði í Síldarsmugunni í beinu framhaldi af íslensku efnahagslögsögunni. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld unnið ötullega að því að tryggja rétt Íslands til landgrunns utan 200 sjómílna efnahagslögsögunnar á Reykjaneshrygg, í Síldarsmugunni og á Hatton- Rockall svæðinu. Starfið hefur verið tvíþætt. Annars vegar hafa verið gerðar mælingar á þessum landgrunnssvæðum og undirbúin greinargerð um þau til Landgrunnsnefndar Sameinuðu þjóðanna. Hins vegar hafa staðið yfir viðræður um skiptingu landgrunnsins á Hatton-Rockall svæðinu og í Síldarsmugunni við þau lönd sem gera tilkall til sömu svæða. Íslenskar orkurannsóknir hafa tekið þátt í þessu starfi frá árinu 2000. Sérfræðingar ÍSOR hafa haft umsjón með mælingum á landgrunninu og gegnt lykilhlutverki við undirbúning greinargerðarinnar  um landgrunnið. Þeir hafa einnig veitt vísindalega og tæknilega ráðgjöf í tengslum við milliríkjaviðræðurnar um Síldarsmuguna og Hatton-Rockall svæðið. Steinar Þór Guðlaugsson, jarðeðlisfræðingur hefur stýrt verkinu  af hálfu ÍSOR en auk hans hafa jarðeðlisfræðingarnir Hjálmar Eysteinsson og Sigvaldi Thordarson og Bjarni Richter jarðfræðingur átt veg og vanda af verkinu.