[x]
15. júní 2007

Rannsóknir á jarðgangaleið Sundabrautar

Árni Hjartarson að skoðar kjarna úr jarðgangaleið Sundabrautar.Fyrir nokkru hófust rannsóknaboranir  á jarðgangaleið Sundabrautar. Um er að ræða tvöföld jarðgöng  sem liggja frá Laugarnesi  og  fylgja Sæbrautinni inn með Sundahöfn , sveigja svo inn undir Kleppsskaft að ströndinni, þvera Elliðaárvog og koma til yfirborðs í Gufunesi. Hliðargöng liggja til yfirborðs í Sundahöfn og við Holtagarða.  Tilgangurinn er að ganga úr skugga um hvort  þetta sé fær jarðgangaleið og ef svo er, að renna styrkari stoðum undir kostnaðaráætlanir sem gerðar hafa verið. Í haust á síðan að vera unnt að taka upplýsta ákvörðun um hvort ráðist verður í jarðgangagerðina eður ei. Það er Alvarr ehf. sem sér um borverkið í samvinnu við skandinavísk borfyrirtæki. Sænskir og finnskir bormenn hafa starfað með íslendingum við verkið. Gert er ráð fyrir 11 kjarnaholum, um 60 m djúpum. Þar af eru tvær skáholur og ein hola verður boruð frá pramma á miðjum Elliðavogi. ÍSOR hefur umsjón með verkinu og jarðfræðilegri túlkun gagna.  ÍSOR sér einnig um jarðeðlisfræðilegar rannsóknir á aðstæðum undir Elliðavogi í samvinnu við Jarðfræðistofu Kjartans Thors. VGK-Hönnun sér um jarðtæknilegar prófanir á borkjörnum.  Búið er að bora fjórar holur á fyrsta þriðjungi leiðarinnar þ.e.  milli Laugarness og Klepps.  Jarðlögin eru nokkuð sundurleit eins og búist var við. Efst er Reykjavíkurgrágrýti en undir því eru allþykk setlög, Elliðavogssetlögin svonefndu, sem eru um 200 þúsund ára. Neðan við þau er miklu eldra berg sem orðið hefur til í hinni fornu Viðeyjareldstöð fyrir meira en tveimur milljónum ára. Þar skiptast á móberg og innskotaberg.  Fyrstu athuganir benda til þess að aðstæður til garðgangagerðar í þessu bergi séu sæmilegar.