[x]
25. júlí 2006

Rannsóknir Íslenskra orkurannsókna á koltvísýringsbúskap jarðhitasvæða

Á Íslenskum orkurannsóknum hefur að undanförnu verið unnið að rannsóknum á koltvísýringsbúskap jarðhitasvæða.  Þessar rannsóknir eru tvíþættar og lúta annars vegar að því að ákvarða náttúrulega losun koltvísýrings í andrúmsloft á jarðhitasvæðum og hins vegar að því að ákvarða magn koltvísýrings sem bundist hefur í bergi jarðhitakerfa. 
Markmið þessara rannsókna er margþætt. 

  1. Almennt má segja að þær afli nýrra grunnupplýsinga um náttúru Íslands sem einnig gilda fyrir úthafshryggjakerfi jarðar. 
  2. Niðurstöðurnar nýtast við mat á umhverfisáhrifum jarðvarmavirkjana, t.d. til mats á raunverulegri viðbót CO2 losunar til andrúmslofts við virkjun.
  3. Nota má upplýsingar um gasflæði frá jarðhitakerfum til að meta náttúrulegt varmaflæði frá þeim og þar með vísbendingu um afl kerfanna.
  4. Einnig er magn CO2 streymis kortlagt og fást þannig fram upplýsingar um legu sprungna sem nýtast við staðsetningu borholna.
  5. Loks má nefna að niðurstöður þessara rannsókna veita mikilvægar upplýsingar um það hvernig árangurs má vænta af fyrirhugaðri tilraun til að binda koltvísýring í bergi.