[x]
24. janúar 2008

Rannsóknir á gangaleið Sundabrautar

Borgarráð samþykkti á dögunum að Sundabraut verði lögð í göngum frá Laugarnesi í Gufunes, með eðlilegum fyrirvara um niðurstöður umhverfismats. Á liðnu sumri unnu sérfræðingar ÍSOR að skipulögðum jarðfræðirannsóknum á þessari gangaleið. Niðurstöðurnar voru þær að aðstæður til jarðgangagerðar teljast sæmilegar, bergið er víðast allþétt og engin umtalsverð leka- eða sprungusvæði komu í ljós. Aðstæður eru þó taldar heldur lakari en í Hvalfjarðargöngum, þar sem ÍSOR annaðist einnig jarðfræðirannsóknir. Verkið var unnið fyrir Vegagerðina en ÍSOR hafði umsjón með því og sá einnig um útgáfu á rannsóknarniðurstöðum. Gerðar voru boranir, lektarpróf, hita- og vatnsborðsmælingar, kjarnagreining, hljóðhraðamælingar,  bylgjubrotsmælingar og berggæðamat. Samvinnuaðilar ÍSOR voru VGK-Hönnun og Jarðfræðistofa Kjartans Thors. Alvarr ehf. sá um boranir í samvinnu við skandinavískt borfyrirtæki. Jarðgangaleiðin sem rannsökuð var liggur frá Laugarnestanga og inn undir Laugarnes og Laugarás upp af Sundahöfn, sveigir svo að ströndinni við Klepp, þverar Elliðavog og endar í Gufunesi. Tvenn hliðargöng koma til yfirborðs í grennd við Holtagarða og við Klettagarða. Þau munu liggja á 60-70 m dýpi undir voginum. Þetta verða tveggja akreina göng með einstefnu í hvorum hluta fyrir sig, sem sagt heilmikið gatnakerfi neðanjarðar. Framkvæmdin um Sundagöng er nú í umhverfismati og vafalítið verður þörf á nánari undirbúningsrannsóknum þó ekkert hafi verið ákveðið um það enn. Skáhola á jarðgangaleiðinni í Gufunesi. Ljósm. Árni Hjartarson.Einfaldað jarðfræðikort. Jarðgangaleiðin og helstu jarðmyndanir eru sýndar.