[x]
22. júlí 2019

Rannsóknarleiðangur á hafsvæðinu suður af Íslandi

Mynd sýnir mælilínur rannsóknarleiðangursins á Reykjaneshrygg. ÍSOR er þátttakandi í rannsóknarleiðangri á hafsvæðinu suður af Íslandi, nánar til tekið í hlíðum Reykjaneshryggjar, á hafrannsóknarskipinu R/V Neil Armstrong. Skipið er rekið af Woods Hole Oceanographic Institution (WHOI). NSF sjóðurinn kostar leiðangurinn. Leiðangursstjóri er Fernando Martinez frá Háskólanum í Hawaii. Háskóli Íslands tekur þátt í leiðangrinum undir stjórn Ármanns Höskuldssonar. Frá ÍSOR er Sigvaldi Thordarson verkefnastjóri landgrunnsverkefnisins.  Rannsóknarleiðangurinn hófst 24 júní og er áætlað að vera á sjónum til 29 júlí.

Markmið rannsóknarleiðangursins er að safna gögnum sem nýst geta til að rekja breytingar í eðli og rekstefnu Reykjaneshryggjar, en þær eru lýsandi fyrir breytingar í jarðhniki (tectonic) svæðisins. Vonast er til að þessar mælingar geti varpað nýju og skýrara ljósi á þessa sögu. Megináhersla er lögð á söfnun segulgagna, en mælilínur eru lagðar í áætlaða rekstefnu platnanna frá rekhryggnum til að fá sem skýrasta mynd af því hvernig rekið raunverulega var á hverju tímabili fyrir sig. Þyngdargögnum er einnig safnað. Hljóðskanni (chirp, echo sounder) er notaður til að mæla dýpið og með honum er hægt að rýna aðeins ofan í setlögin. Síðan er fjölgeisla dýptarmælir (MultiBeam) notaður til að fá nákvæma mælingu á landslaginu, en lauslega áætlað má gera ráð fyrir að flatarmál þess svæðis sem fjölgeisla dýptarmælirinn skannar í leiðangrinum sé talsvert stærra en Ísland.
Einnig eru um borð í skipinu straummælar (ADCP – Acoustic Doppler Current Profiler) sem mæla hafstrauma niður á nokkur hundruð metra dýpi og virðist hér vera um áhugavert gagnasett að ræða þó það sé ekki til skoðunar í því verkefni sem mælileiðangurinn snýst um. 

Mælingarnar eru að mestum hluta í vesturhlíðum Reykjaneshryggjar, en einnig verður talsvert mótlægt svæði í austurhlíðum hans mælt, auk þess sem lítið svæði yfir enda forns rekhryggjar verður skoðað, en sá lá milli Grænlands og Kanada (meðfylgjandi mynd sýnir mælilínur þessa leiðangurs, en þar sést einnig hvar fyrri mælileiðangrar sama mælihóps voru, auk þess sem flæðilínur, eða rekstefnur hryggjarins, eru sýndar með daufum línum).

Það verður spennandi að fylgjast með því hvað samtúlkun allra þessara gagna mun segja okkur um rekhryggi á hafsvæðinu suður af Íslandi og má vænta fróðlegra skrifa um það í náinni framtíð.